Fiskimjölsverksmiðja Eskju rafvædd: Framkvæmt fyrir hálfan milljarð króna

eskifjordur_eskja.jpg
Eskja hf. hyggst í sumar ráðast í rafvæðingu fiskimjölsverksmiðjunnar á Eskifirði. Verkið er talið kosta um hálfan milljarð króna. Fjármálastjóri fyrirtækisins segir það gefa því samkeppnisforskot að geta auglýst að það noti endurnýjanlega orku.

Rafvæðingin krefst þess að farið verði í önnur verk samhliða henni. Verkþættirnir eru því fjórir: Rafhitarar, spennar, rofar og fleira, efnaturnar og 42ja metra hár reykháfur, endurnýjum á verksmiðjuhúsinu sjálfu sem stækkað verður um sex metra og nýtt hús verður byggt á lóð félagsins undir starfsmannaaðstöðu.

Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdirnar er um 500-600 milljónir króna. Þá þarf RARIK að skipta út 10 MW spenni fyrir 25 MW á Eskifirði sem verður aðeins fyrir Eskju. Leggja þarf nýja heimtaug frá spenni að verksmiðjunni. 

Skiptir sköpun fyrir samkeppni framtíðarinnar

Páll Snorrason, fjármálastjóri Eskju, segir ákvörðunina um rafvæðinguna hafa verið tekna í ljósi hækkandi olíuverðs. Hann segir forsvarsmenn Eskju þeirrar skoðunar að „gæti skipt sköpun“ til að verksmiðjan verði samkeppnishæf til framtíðar.“

„Eftir þessa breytingu mun verksmiðjan vera nokkurskonar "twin" verksmiðja og við geta keyrt hana bæði á rafmagni og olíu en við þurfum alltaf að standa klárir á að vera með uppsett varaafl ef kemur til skerðingar á raforku. Verð á rafmagni hefur reyndar einnig hækkað en eins og staðan er í dag er töluvert hagstæðara að keyra verksmiðjuna á rafmagni heldur en olíu.

Það er einnig umhverfisvænna og mun klárlega gefa okkur ákveðið forskot í markaðssetningu á okkar afurðum að geta fullyrt að verksmiðjan okkar sé keyrð á hreinni endurnýjanlegri orku.“

Ein sú flottasta í Norður-Atlantshafi

Ekki er ljóst hversu margir fá vinnu við framkvæmdirnar en að þeim koma bæði stærri smiðjur eins og Héðin og Hamar, minni verktakar í heimabyggð, starfsmenn Eskju og verkfræðistofur. Gert er ráð fyrir að framkvæmdunum verði lokið fyrir áramót.

Þá á verksmiðjan að verða orðin ein sú fullkomnasta í Norður-Atlantshafi. „Fiskimjölsverksmiðja Eskju hf. framleiðir hágæðamjöl sem er með mjög mikið prótein og hefur háan meltanleikastuðul. Í mörg ár hefur verksmiðjan verið þekkt fyrir afburða góðar afurðir og við höfum komið mjög vel út í úttektum sem okkar viðskiptavinir gera reglulega á sínum framleiðendum. 

Miklar kröfur eru gerðar af hálfu fóðurframleiðanda um gæði, rekjanleika og að afurðir okkar komi frá sjálfbærum veiðum. Það er á grunni þessara upplýsinga frá okkar kaupendum í Noregi sem við treystum okkur til að segja að okkar verksmiðja sé ein af fullkomnari verksmiðjum í Norður Atlantshafi og eftir þessar framkvæmdir verður verksmiðjan enn betri og tæknivæddari.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar