Fjallvegum lokað: Vindurinn nær sér vel niður á Vopnafirði

Vegagerðin hefur boðað lokanir á austfirskum vegum frá klukkan fjögur og fram á kvöld vegna afleitrar veðurspár. Veðurfræðingur segir Austfirðinga sunnan Vopnafjarðar, sleppa betur en aðra landsmenn við hvassviðrið.


„Þið sleppið vel við vindinn miðað við landið en fáið einna mestu úrkomuna. Vindurinn nær sér hins vegar vel á strik á Vopnafirði og Úthéraði,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofunni.

Smám saman bætir í vind og úrkomu eftir því sem líður á daginn. Búist er við suðaustan og austsuðaustan átt á Austfjörðum, um 20 m/s á láglendi en 28 m/s á fjöllum.

Í fyrstu verður snjókoma og slydda en síðar í dag hlýnar og bætir í úrkomuna sem fellur jarðar sem rigning. Lætin ná hámarki milli klukkan sex og átta en upp úr miðnætti fer að ganga niður, fyrst syðst á svæðinu.

„Þegar úrkoma og vindur fara saman er ekkert ferðaveður,“ segir Helga. Oddsskarði, Fjarðarheiði, Fagradal, Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði var lokað í hádeginu og strax í morgun var orðið ófært til Borgarfjarðar.

Á Austfjörðunum stendur vindurinn af hafi en þegar hann kemur til Vopnafjarðar hefur hann ferðast yfir fjöll þannig að á firðinum skella öflugar fjallabylgjur. Búist er við 28 m/s meðalvindhraða og hviðum yfir 40 metrum þar milli klukkan sex og átta.

Ofanflóðadeild Veðurstofunnar fylgist einnig með framþróuninni. „Það er töluverð úrkoma í þessu veðri sem við fylgjumst með en á móti kemur að það er lítill snjór fyrir í fjöllum. Það hafa engin flóð verið tilkynnt í þessum snjó sem nýkominn er.

Það er enginn sérstakur viðbúnaður hjá okkur enn en við skoðum hann betur seinni partinn þegar veðrið byrjar fyrir austan,“ segir Magni Hreinn Jónsson, sérfræðingur á deildinni.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.