Fjarðabyggð: Engin sátt að kippa burtu störfum og færa þau annað

nesk.jpgBæjarstjórn Fjarðabyggðar mótmælir báðum frumvörpum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á kvótakerfinu. Hún lýsir áhyggjum sínum af áhrifum þess á atvinnulíf í sveitarfélaginu.

 

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnarinnar í gær. Þar er lýst „þungum áhyggjum“ af tillögum í hinu svokallaða „minna kvótafrumvarpi“ og efni beggja frumvarpa ráðherrans mótmælt. Vísað er til harðrar gagnrýni fjölmargra hagsmunaaðila á frumvörpin og að ekki liggi fyrir mat á hagrænum áhrifum þeirra.

„Sýnt þykir að frumvörpin hafi í för með sér gríðarlega umbyltingu á sjávarútvegi og setja framtíð hans og um leið efnahagslega þýðingu í uppnám,“ segir í ályktunni.

Útvegsmenn í Fjarðabyggð kynntu í síðustu viku úttekt þar sem gert er ráð fyrir að 100 manns missi vinnuna ef aflaheimildir í sveitarfélaginu skerðist.

„Bæjarstjórn Fjarðabyggðar sér ekki að svokölluð 'sátt' í sjávarútvegsmálum náist með því að kippa burt störfum sjómanna og fiskvinnslufólks í Fjarðabyggð til að fara með þau eitthvað annað. Slíkt kemur engum til góða. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar vekur einnig athygli á áliti sérfræðings Lagastofnunar Háskóla Íslands, en þar var lýst yfir nýlega að lagafrumvarpið eigi sér fáa líka í flokki óvandaðra lagafrumvarpa á sviði íslenskrar fiskveiðistjórnar. „

Bæjarstjórnin hvetur því til þess að allir þeir sem að málunum komi setjist aftur að sáttaborði í haust.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.