Fjarðabyggð höfðar mál gegn Lánasjóði sveitarfélaga
Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur höfðað mál á hendur Lánasjóði sveitarfélaga vegna erlendra lána sem sveitarfélagið tók hjá sjóðnum. Bæjarstjórn telur rétt að gæta hagsmuna sveitarfélagsins með því að láta reyna á réttarstöðuna.
Um er að ræða lán í evrum og dollar sem tekið var árið 2006 upp á um 800 milljónir króna sem síðar hefur „stökkbreyst.“
Í bókun bæjarstjórnar segir að „mikilvægt sé að gæta hagsmuna sveitarfélagsins með því að láta reyna á réttarstöðu þess.“ Þar segir enn fremur að bæjarráð hafi undanfarin misseri verið með erlend lán sveitarfélagsins til skoðunar með tilliti til lögmætis þeirra og verið í samskiptum við lánadrottna.
„Það eru engin læti. Við höfum verið í góðum samskiptum við lánasjóðinn,“ sagði Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í samtali við Austurfrétt. „Við höfum varið vandlega yfir okkar lán og ákváðum að gæta hagsmuna sveitarfélagsins með því að láta reyna á réttarstöðuna.“
Sveitarfélagið Skagafjörður stefndi sjóðnum síðasta vor út af gengisláni. Fleiri sveitarfélög og stofnanir sveitarfélaga hafa skoðað stöðu sína gagnvart sjóðnum en ekki enn látið verða af málshöfðun.