Fjarðabyggð: Við erum að borga skuldir hratt niður
Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir sveitarfélagið vera á góðri leið með að borga niður skuldir sínar. Jafnvægi sé komið í reksturinn eftir niðurskurð síðustu ár.
Þetta kemur fram í viðtali við Pál Björgvin í jólablaði Austurgluggans. Miklar afborganir eru framundan á lánum árið 2013 en bæjarstjórinn segir það hafa verið fyrirséð.
Áætlað er að fjárfesta fyrir 766 milljónir á næsta ári, fyrst og fremst í hafnarmannvirkjum sem hafnarsjóður fjármagnar. „Rekstrarlega verður árið 2013 í jafnvægi nema að atvinnustig breytist, sem við eigum svo sem ekki von á, heldur eigi það frekar eftir að eflast.“
Páll segir að gjaldskrár muni „hækka almennt í samræmi við verðlag.“ Sérstaklega sé reynt að hlífa fjölskyldu- og barnafólki við þeim og ekki sé von á frekari skerðingu á þjónustu.
„Þar sem það er hægt er verið að draga til baka hluta af þeim hagræðingaraðgerðum sem beitt var fyrir tveimur árum, s.s. varðandi opnunartíma sundlauga.“
Samkvæmt áætlunum á Fjarðabyggð að ná markmiðum um að skuldir verði innan við 150% af heildartekjum innan sex ára en sveitarfélagið fékk áminningu vegna skuldsetningar fyrir tveimur árum frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.