Fjarðabyggð vill að Íbúðalánasjóður leigi fleiri íbúðir út

pall_bjorgvin_2012.jpg

Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur hvatt Íbúðalánasjóð til að setja fleiri íbúðir á leigu. Sjóðurinn hefur að einhverju leyti brugðist við þeim umleitunum en vill frekar selja húsnæði en leigja.

 

„Við finnum fyrir aukinn þörf fyrir leiguhúsnæði í Fjarðabyggð og svo virðist sem eftirspurn sé meiri en framboð á þessum tímapunkti,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar óskaði eftir því við sjóðinn að hann setti meira af húsnæði í sinni eigu á leigumarkað. „Það er að einhverju leyti að ganga eftir. Þeir hafa auglýst íbúðir til leigu en við teljum að það þurfi að vera meiri fjölbreytileiki í úrvalinu til að sinna þörfinni á markaðinum.“

Íbúðalánasjóður á í dag um 2.000 íbúðir í 50 sveitarfélögum um allt land. Um 850 þeirra eru í útleigu, rúmlega 520 í sölu, á leið á sölu eða útleigu, um 300 á byggingastigi og ríflega 350 í millibilsástandi, að því er fram kemur í bréfi sem sjóðurinn sendi Fjarðabyggð í síðasta mánuði.

Fleiri sveitarfélög en Fjarðabyggð hafa þrýst á sjóðinn að setja fleiri íbúðir í leigu. Meginmarkmið sjóðsins er að selja eignir frekar en leigja þær út og langtímamarkmiðið að draga sig að fullu út úr leigustarfsemi. 

Sjóðurinn fjölgaði nokkuð íbúðum í leigu í sumar. Fyrr í sumar setti sjóðurinn fjölda eigna á sölu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar