Fjarðarheiði: Snérust í hálfhring þegar snjóplógurinn þrusaði aftan á bílinn

fjardarheidi_crash_18032013_il_snyrt.jpg
Ungmenni á leið yfir Fjarðarheiði í morgun urðu fyrir þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að snjóruðningstæki keyrði aftan á bíl þeirra þar sem hann sat fastur. Afleitt skyggni var á heiðinni í morgun.

„Við festumst þarna svo þrusaði plógurinn bara beint aftan á skottið og ýtti bílnum einhvern vegin út á hlið,“ segir Ingibjörg Lárusdóttir sem ásamt fjórum vinum sínum fór frá Seyðisfirði og ætlaði í Menntaskólann á Egilsstöðum á tíunda tímanum í morgun.

„Höggið kom aftan á bílinn vinstra megin og snérist í hálfhring. Okkur brá öllum rosalega mikið en við höfðum mestar áhyggjur af því að einhver hefði slasast. 

Ég og vinkona mín vorum í framsætunum og hlupum beinustu út úr bílnum til að athuga hvort það væri ekki í lagi með krakkana aftur í.“

Krakkarnir voru í sambandi við aðra vinkonu á sömu leið. Sú lenti í því að keyrt var aftan á hana á heiðinni. Hóparnir hittust á slysstað þangað sem lögreglan var einnig mætt en að því búnu ákváð hópur Ingibjargar að snúa við og halda heim á Seyðisfjörð.

Á leiðinni til baka festust þau og þá kom plógurinn aftan undir bílinn. Ingibjörg segir að færð og skyggni hafi verið afleitt á heiðinni í morgun.

„Við höfðum eiginlega ekki séð neitt mest alla leiðina. Á vef Vegagerðarinnar stóð að það væri skafrenningur og þæfingur. Rétt á meðan bíllinn sat fastur var heiðinni lokað. Þegar við höfðum losað hann var hún opnuð á ný og bara talað um skafrenning og þæfing.“

Fimmenningarnir fóru í athugun á heilsugæslunni á Seyðisfirði en töldust öll ómeidd. Bíllinn er hins  vegar talsvert mikið skemmdur.

„Skottið á bílnum er komið í algjöra klessu og rúðurnar brotnar enda var snjótækið bara komið inn í skottið á bílnum. Það munaði litlu að það hefði farið í krakkana sem sátu aftur í.“

Útsýnið úr snjóruðningstækinu á meðan verið var að losa bílinn. Mynd: Ingibjörg Lárusdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar