Fjarbúafélaginu ætlað að styðja við samfélagið

„Tilgangur félagsins er að styðja við búsetu, mannlíf og þjónustu á staðnum,” segir Þórhalla Guðmundsdóttir, formaður Fjarbúafélags Borgarfjarðar eystra, sem stofnað var fyrir stuttu.

Þórhalla, sem sjálf er ættuð frá Borgarfirði og á þar hús, segir hugmyndina að félaginu hafa kviknað eftir íbúaþing í tengslum við verkefnið Brothættar byggðir sem haldið var á Borgarfirði í febrúar 2018.

„Þar var sú staðreynd rædd að fleiri húseignir eða jarðir væru í eigu fjarbúa en þeirra sem hefðu fasta búsetu á staðnum. Þeim spurningum var varpað fram hvað þessi hópur ætlaði sér að gera og hvert væri hlutverk hans á staðnum? Við þá umræðu kviknaði hugmyndin að stofna félag sem gæti stutt við samfélagið með einhverjum hætti,” segir Þórhalla, en með henni í stjórn eru þau Bjarnþór Sigvarður Harðarsson og Árni Einarsson. Í varastjórn eru Páll Sigurðsson og Gróa Eiðsdóttir.

Sterkur hópur með breiðan bakgrunn
Þórhalla segir fjarbúana sterkan hóp með breiðan bakgrunn menntunar og hæfileika. „Við studdum það meðal annars að opnuð yrði verslun á Borgarfirði á ný ásamt heimamönnum. Þeir sem eiga þarna hús þurfa að taka þátt í samfélaginu, það er til dæmis ekki nóg að koma í sumarhúsið og bera allar vistir frá Egilsstöðum. Við þurfum að leggja okkar að mörkum til þess að samfélagið geti rekið sig og haldið velli, en margar hendur geta gert ýmislegt gott,” segir Þórhalla.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.