Fjarðabyggð í samvinnu við Villiketti á Austurlandi

„Hægt og rólega, á mjög mjúkan hátt munum við ná að gera starf Villikattanna óþarft vegna þess að kettirnir ná ekki að fjölga sér,” segir Anna Berg Samúelsdóttir, umhverfisstjóri Fjarðabyggðar, en sveitarfélagið undirritaði á dögunum samning við dýraverndunarfélagsið Villikettir á Austurlandi með það að markmiði að félagið sjái um föngun vergangs- og villikatta á svæði þess.

Í fréttatilkynningu á heimasíðu Fjarðabyggðar segir að félagið muni sjá um að fanga ketti sem ýmist eru á vergangi og/eða villtir, koma þeim í öruggt skjól og finna þeim heimili.

„Villikettir beita svonefndri TNR aðferð (Trap-Neuter-Return) sem þýðir að allir kettir sem verða fangaðir fá einstaklingsmerkingu, gerðir ófrjóir, fá ormalyf og fara svo í heimilisleit. Í þeim tilfellum sem ekki tekst að finna þeim heimili, einhverra hluta vegna, er þeim sleppt út aftur, ef heilsa þeirra leyfir,” segir Anna Berg.

Í fréttatilkynningunni segir að félagið muni vinna að verkefninu í sjálfboðaliðastarfi en sveitarfélagið muni útvega húsnæði fyrir starfsemina, þar sem kettirnir hafa aðsetur á meðan þeir jafna sig eftir aðgerð og leitað er eftir fjölskyldu handa þeim.


Fljótsdalshérað hafnaði samstarfi við Villikettina
Í frétt sem Austurfrétt birti fyrir stuttu um ákvörðun sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs um átak í föngun villikatta hafnar Björn Ingimarsson bæjarstjóri því að sveitarfélagið fari ekki að lögum við verkið, en þar verða gildrur frá 18. febrúar til 8. mars og þeir villikettir sem nást í þær verða deyddir með svæfingu.

Villikettir á Austurlandi hafa gagnrýnt aðgerðir Fljótsdalshéraðs og boðið fram aðstoð sína, en Björn segir álit eftirlitsstofnana hafa mælt gegn því að sveitarfélagið nýtti sér aðferðir þeirra í átakinu. Niðurstaðan hafi verið afdráttarlaus, en í umsögn um aðferðarfræðina sem fengin var frá Matvælastofnun, sem sinnir eftirliti með dýravelferð og heilbrigðiseftirlitinu, segi að aðferðir Villikatta brjóti gegn lögum um dýravelferð og reglugerðir um merkingu katta og hafi sveitarfélagið því hafnað samstarfinu.

Aðspurð að því hvort Fjarðabyggð hafi leitað álits MAST í tengslum við ákvörðunina segir Anna Berg; „Málið snýr að því að fimm millimetrar eru sneyddir ofan af vinstra eyra þeirra katta sem ekki aðlagast manninum og því ekki hægt að finna ný heimili. Í þeim tilfellum er þessi leið valin til þess að kattafangarar geti séð að viðkomandi köttur hefur verið fangaður, geldur og gefið ormalyf, en þá þarf ekki að athuga hann aftur.

Fagráð um velferð dýra hefur gefið það álit að aðferðir Villikattanna stangist ekki á við lög um velferð kattanna,” segir Anna Berg sem vísar í ályktun fagráðsins sem er að finna inn á heimasíðu Villikatta.

Matvælastofnun (MAST) og Villikettir hafa lengi verið á öndverðum meiði varðandi túlkun þessarar lagagreinar og endaði málið hjá atvinnu-og nýsköpunarráðuneyti sem ályktaði að um túlkunaratriði væri að ræða og beindi því til MAST að fá álit fagráðs um velferð dýra, á því hvort eyrnaklippingar á villiköttum væru heimilar. Ályktunina í heild sinni má lesa hér.


Allir kettir sem fangaðir voru í fyrra fengu nýtt heimili
Anna segir Fjarðabyggð fylgja fordæmi annarra sveitarfélaga á borð við Hveragerðisbæ, Reykjanesbæ og Kópavogsbæ, sem hún segir hafa átt gott samstarf við villikattafélög.

„Við kynntum okkur málin vel áður en við tókum ákvörðun. Hingað inn til sveitarfélagsins hefur aldrei borist ábending vegna árása katta á fólk. Það er hins vegar alveg á hreinu að ef við myndum fanga árásargjarnan kött yrði honum ekki sleppt aftur út í náttúruna.

Af ellefu köttum sem fangaðir voru á vegum Villikatta í Fjarðabyggð árið 2018 fengu allir ný heimili og einn þeirra komst aftur heim til sín eftir árs fjarveru. Þetta er þannig dæmi að við gátum ekki horft framhjá því að villikattafélagið er að gera góða hluti. Við höfum stöku sinnum staðið frammi fyrir því að fólk er að eitra fyrir köttum vegna þess að það telur sig verða fyrir ónæði af þeim. Með þessu samstarfi teljum við okkur geta leyst slík mál á farsælli hátt, en það er svo sannarlega ekki markmið okkar að fjölga villiköttum.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar