Fjarðabyggð hafnaði beiðni Eistnaflugs um tveggja milljóna styrk

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur hafnað beiðni tónlistarhátíðarinnar Eistnaflugs um tveggja milljóna króna styrk fyrir næsta ár. Enn er verið að greiða úr skuldum eftir hátíðina 2017.

Í bókun bæjarráðs frá á mánudag segir að ráðið geti ekki orðið við beiðninni en Fjarðabyggð muni áfram styðja hátíðina eins og verið hefur.

Í bréfi frá Millifótakonfekti ehf., sem heldur utan um hátíðina, er óskað eftir tveggja milljóna styrk til að mynda svigrúm til að skipuleggja hátíðina á næsta ári af fullum krafti.

Hátíðin gekk erfiðlega árið 2017 og í bréfinu er greint frá því að eftir hana hafi verið greiddar upp skuldir sem samsvari 20 milljónum króna á hátíðinni. Bæði hafi verið seld hlutabréf og fengnir styrkir frá fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum. Enn séu fimm milljónir ógreiddar þolinmóðum kröfuhöfum.

Þar er einnig komið inn á að unnið hafi verið að því að minnka útgjöld hátíðarinnar, sem gengið hafi vonum framan. Þá hafi hátíðin lagt áherslu á að kaupa vörur og þjónustu hjá fyrirtækjum í Fjarðabyggð til að styrkja enn frekar innviði samfélagsins.

Ennfremur segir í bréfinu að unnið hafi verið hörðum höndum að því að auglýsa menningu Eistnaflugs, Fjarðabyggðar og þungarokks almennt og náðst hafi að halda mannorði og góðu orðspori hátíðarinnar þrátt fyrir mikinn mótbyr.

Markmiðið sé að búa til hátíð sem styrki íslenska tónlist, Fjarðabyggð og þá góðu ímynd sem alltaf hafi fylgt Eistnaflugi í Neskaupstað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.