Fjarðabyggð vermir botnsætið í ánægjukönnun meðal starfsfólks sveitarfélaga

Sveitarfélagið Fjarðabyggð mælist neðst í könnun á almennri ánægju starfsfólks sem tíu bæjarstarfsmannafélög Bandalags starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) stóðu fyrir í samvinnu við Gallup meðal 22 sveitarfélaga landsins.

Þeirri könnun, sem gerð hefur verið síðan 2022, er ætlað að varpa ljósi á starfsaðstæður og starfsánægju fólks sem starfa hjá sveitarfélögum landsins og með því hvetja stjórnendur þeirra til að veita starfsumhverfi hvers sveitarfélags meiri athygli og ráða bót á vandamálum áður en þau verða of yfirgripsmikil. Viðurkenningin Sveitarfélag ársins er gefin því sveitarfélagi sem bestar einkunnir fær frá starfsmönnum sínum.

Sveitarfélagið Skeiða- og Gnúpverjahreppur fékk heiðursnafnbótina Sveitarfélag ársins 2024 nýverið en alls 22 sveitarfélög landsins tóku þátt að þessu sinni. Þar á meðal bæði Múlaþing og Fjarðabyggð gegnum Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi (FOSA.)

Í svörum sínum geta þátttakendur gefið tíu mismunandi þáttum starfa sinna einkunn frá 1 til 5. Fimman þar best og einn verst.

Almenn ánægja er meðal starfsfólks Múlaþings sem lenti í fjórða sætinu þetta árið með heildareinkunnina 4,142. Þar stóð upp úr mikil ánægja með sveigjanlegan vinnutíma og sjálfstæði í starfi meðan ánægja með launakjör var í minni kantinum.

Annað var uppi á teningnum í Fjarðabyggð. Það sveitarfélag vermir botnsætið í könnuninni þetta árið en 75% allra sveitarfélaga sem þátt tóku voru með betri einkunn en Fjarðabyggð í öllum tíu þáttum sem að var spurt. Aðeins eitt annað sveitarfélag þykir bjóða verri launakjör en Fjarðabyggð, starfsandi og vinnuskilyrði þykja hvergi verri og ánægja og stolt er hvergi minna meðal þeirra sveitarfélaga sem þátt tóku. Heildareinkunn Fjarðabyggðar reyndist 3,723 eða 60 stigum neðar en næstneðsta sveitarfélagið sem var Skagafjörður.

Niðurstöðurnar má sjá í heild sinni hér.

Frá afhendingu verðlauna til Sveitarfélags ársins sem fram fór í Reykjavík í síðasta mánuði. Mynd Sveitarfélag ársins

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar