Fjarðalistinn ræðir aftur við alla

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um formlegar meirihlutaviðræður í Fjarðabyggð. Fjarðalistinn, sem er í lykilstöðu eftir kosningarnar á laugardag með fjóra bæjarfulltrúa, metur vænlega samstarfsaðila aftur í dag.

„Við höfum talað við alla og munum gera það aftur í dag. Við gáfum það út að við gengjum óbundin til kosninga,“ segir Eydís Ásbjörnsdóttir, oddviti Fjarðalistans.

Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem ríkt hefur frá 2010, féll í kosningunum þar sem báðir flokkar fóru úr þremur bæjarfulltrúum í tvo. Að auki hefur Miðflokkurinn einn fulltrúa sem þýðir að Fjarðalistinn getur myndað tveggja lista meirihluta með hverjum og einum hinna þriggja.

Fulltrúar Fjarðalistans hittust í gærkvöldi eftir að hafa rætt við fulltrúa hinna framboðanna þriggja og staðan verður tekin aftur í kvöld áður en ákvörðun verður tekin um óformlegar viðræður. „Við ætlum að vanda til verka.“

Fjarðalistinn bætti við sig tveggja prósentustiga fylgi og einum fulltrúa í kosningunum um helgina. „Ég er mjög þakklát fyrir stuðninginn. Það er greinilegt að fólk vill sjá breytingar og treystir okkur til að fara í þær,“ segir Eydís.

Spennan var mikil á laugardagskvöld. Fjórði maður Fjarðalistans, Einar Már Sigurðarson, var inni í fyrstu tölum, úti í öðrum tölum en inni í lokatölum á einu atkvæði. Næstur inn var þriðji maður Sjálfstæðisflokksins, Ragnar Sigurðsson og fór flokkurinn fram á endurtalningu á sunnudag. Í henni voru úrslitin staðfest.

„Það ríkti mikil gleði hjá okkur þegar lokatölur lágu fyrir á laugardagskvöld. Spennustigið var hins vegar hátt fram yfir endurtalningu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.