Fjögurra vikna gæsluvarðhald staðfest

Landsréttur hefur staðfest fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir karlmanni sem grunaður er að hafa stungið annan mann með hnífi í heimahúsi í Neskaupstað í síðustu viku.

Árásin átti sér stað skömmu fyrir miðnætti að kvöldi miðvikudagsins 10. júlí. Fram kemur í dóminum að sá sem fyrir árásinni varð hafi náð að berja að dyrum hjá nágranna sínum.

Nágranninn opnaði dyrnar og við það hafi brotaþoli hrunið inn um dyrnar, alblóðugur. Vitnið lýsir því hvernig hann hafi ýtt brotaþola aftur út fyrir af ótta við að árásarmaðurinn myndi ráðast inn í húsið, en hann hafi verið á sveimi fyrir utan húsið blóðugur, með hníf í hvorri hönd og virst vera að leita að þeim slasaða.

Nágranninn hringdi strax í lögreglu sem fann meintan geranda á gangi á leið frá vettvanginum og handtók hann, án mótspyrnu. Lögregla fann tvo hnífa á vettvangi.

Samkvæmt lýsingu var brotaþoli með skerta meðvitund og mikla blæðingu er lögregla kom á vettvang. Hann var fluttur til Reykjavíkur með lífshættulega áverka.

Í vottorði læknis, sem vísað er til í dóminum, hlaut maðurinn stungusár á hálsi nærri stórum slagæðum, bláæðum og barka auk sára nærri lifur og í kvið svo blæddi inn í brjósthol. Hann hafi verið í lífshættu og á þeim forsendum er hinn ákærði grunaður um tilraun til manndráps.

Sá segist muna eftir sér utan við heimili sitt en síðan ekki fyrr en utan dyra blóðugur á höndum með hníf í þeim báðum.

Fram kemur í dóminum að meintur gerandi hafi verið ástfanginn af kærustu brotaþola og áður sent henni hótanir um alvarlegar líkamsmeiðingar.

Saksóknari fór fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald á þeim forsendum að árásarmaðurinn lægi undir grun um afbrot sem varði löngu fangelsi. Að auki sé brotið alvarlegt þannig að almannahagsmunir krefjist langs varðhalds. Þá sé rannsóknin viðamikil.

Sem fyrr segir hefur meintur gerandi verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald, til fimmtudagsins 8. ágúst.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.