Fjölbreytt atriði á svæðistónleikum Nótunnar

Tónlistarnemendur af Norður- og Austurlandi mætast á Eskifirði á morgun í forkeppni Nótunnar, uppskeruhátíðar tónlistarskóla. Tónskólastjóri segir keppnina mikinn viðburð fyrir tónlistarnemendur.

Nótan hefur verið haldin árlega frá árinu 2009. Hún hefst með svæðistónleikum og bestu atriðin þaðan komast áfram í lokakeppnina sem að þessu sinni verður í Hofi, Akureyri eftir tvær vikur.

„Það er gríðarlegur undirbúningur að baki. Fyrir nemendurna veitir Nótan bæði tækifæri til að undirbúa atriði vel og hitta nemendur úr öðrum skólum og sjá hvað það þeir eru að gera, sem er afskaplega gott,“ segir Sóley Þrastardóttir, skólastjóri Tónlistarskólans á Egilsstöðum, sem sæti á í svæðisstjórn Nótunnar.

Ellefu tónlistarskólar á svæðinu frá Austur-Húnavatnssýslu til Hornafjarðar stefna samtals 70 nemum með 27 atriði til Eskifjarðar á morgun. Von er á fjölbreyttum atriðum með klassískri tónlist, djassi, poppi og þjóðlagatónlist.

Tónleikarnir eru í tvennu lagi. Klukkan tvö koma fram nemendur í grunnnámsflokki og opnum flokki en klukkan fjögur nemendur í opnum flokki, miðnámsflokki og framhaldsflokki.

Deginum lýkur á verðlaunaafhendingu klukkan sex. Dómnefnd sem í sitja Jón Hilmar Kárason, tónlistarmaður í Neskaupstað, Magnús Magnússon, fyrrverandi tónskólastjóri á Egilsstöðum og Ólöf Birna Blöndal, fyrrverandi píanókennari, velur sjö framúrskarandi atriði sem komast áfram í lokakeppnina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar