Fjöldi ferðmanna 2019 áttfaldur íbúafjöldi landsins
Ferðaþjónusta er helsti vaxtarbroddurinn í íslensku atvinnulífi síðastliðinn áratug. Ferðafólki til Íslands fjölgaði úr 500 þúsund 2010 í 2,4 milljónir á þessu ári, ef að líkum lætur. Fjöldi ferðafólks á ári er því um áttfaldur íbúafjöldi landsins.Þessi mikli fjöldi leiðir óhjákvæmilega af sér aukið álag á landið og íbúa þess, sem hafa mikinn peningalegan hag af ferðaþjónustunni um leið og hún rýrir lífsgæðin á annan hátt. Fylgifiskar hennar eru semsagt bæði jákvæðir og neikvæðir. Jákvæð áhrif á mannlíf og atvinnulíf er að flestra mati ótvíræð, en um leið upplifa margir átroðning og slæma umgengni.
Á haustfundi ferðaþjónustunnar, sem haldinn var í Sláturhúsinu á Egilsstöðum 14. nóvember á vegum Áfangastaðarins Austurland, var farið ítarlega yfir stöðu greinarinnar og mál krufin til mergjar. Flutt voru sjö framsöguerindi um hina ýmsu þætti ferðaþjónustunnar.
Íbúar á Austurlandi eru flestir mjög jákvæðir gagnvart ferðaþjónustunni, samkvæmt skýrslu Eyrúnar Jennýar Bjarnadóttur, Viðhorf heimamanna til ferðamanna og ferðaþjónustu 2018 - Egilsstaðir. Fólk sér mikil tækifæri í frekari uppbyggingu hennar og telur að útlent ferðafólk hafi gætt samfélagið lífi og haft jákvæð áhrif á mannlífið. Hins vegar er fólk hræddara við að aka um þjóðvegi landsins og telur að efla þurfi innviði í ferðaþjónustu í fjórðungnum.
Landlæg afleiðing af uppgangi ferðaþjónustunnar, og þar meðtalið á Austurlandi, er að fjölgun ferðafólks hefur haft neikvæð áhrif á húsnæðismál. Í skýrlsu Eyrúnar segir orðrétt:
„Á öllum stöðunum kom fram að ferðaþjónusta hefði haft neikvæð áhrif á leigumarkað. Alls staðar, einkum þó á smærri stöðunum þremur, höfðu íbúar fundið tengsl milli erfiðleika á húsnæðismarkaði og skammtímaleigu húsnæðis til ferðamanna, sem oft er talað um sem heimagistingu eða Airbnb. Af niðurstöðunum að dæma litu heimamenn á heimagistingu bæði sem böl og blessun fyrir samfélögin.“
Ljóst er að ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi eru í sóknarhug og fylgjast grannt með öllu er lýtur að markaðssetningu og framþróun greinarinnar, hvort heldur er stafræn þróun eða stefnuáherslur í markaðssetningu almennt. Jafnframt eru aðilar meðvitaðir um þá samfélagslegu ábyrgð sem því fylgir að byggja upp atvinnustarfsemi, sem óhjákvæmilega hefur í för með sér samfélagslegar breytingar kallar á hugarfarsbreytingu heimafólks í umgengni við landið og náttúruna. Á vef Austurbúar má sjá samantekt um ráðstefnuna og nálgast glærur fyrirlesara.