Fjöldi fólks komið að því að tryggja brak og byggingar á Vattarnesi - Myndir
Fjöldi fólks hefur í dag aðstoðað fjölskylduna á Vattarnesi við að safna saman braki og tryggja byggingar sem skemmdist í ofsaveðrinu í gær. Fjárhúsin á bænum eru stórskemmd.Flestir aðstoðarmennirnir komu frá Fáskrúðsfirði en þó voru líka einstaklingar ofan í Skriðdal. Stærsta verkið var að tryggja að fjárhúsið færi ekki enn verr og loka íbúðarhúsinu.
Þakið fauk af fjárhúsunum aðfaranótt fimmtudags. Í því voru um 180 kindur. Ein lést og tvær voru aflífaðar vegna þeirra meiðsla sem þær hlutu. Það er lukka miðað við hversu illa húsið fór. Til viðbótar við þakið brotnaði milligerði í því. Kindunum var hleypt út þegar hægðist um í veðrinu, enda eru þær vanar að vera úti.
Þakplötur losnuðu einnig af íbúðarhúsinu og vatn lak inn í þrjú herbergi þannig ekki hefur verið hægt að nota herbergi á efstu hæðinni. Fjölskyldan kom sér fyrir ofan í steyptum kjallara á meðan veðrið gekk yfir.
Nokkrar skemmdir urðu einnig á sjóhúsi þar. Rúður brotnuðu í bíl. Bátur fauk til og húsið brotnaði af honum. Heimilisfólkið segir fiskikör hafa „fokið um eins og frímerki.“
Þrátt fyrir að veðrið ætti að heita að vera gengið niður í dag gekk þar enn á með duglegum rokum.
Til stóð í morgun að ryðja leiðina um Vattarnesskriður þannig hægt yrði að koma stystu leið milli Vattarness og Fáskrúðsfjarðar. Því var hægt eftir að í ljós kom að um 100 metra kafli var hruninn úr veginum. Trúlega gerðist það í vatnavöxtum í gær. Ljóst er að einhver tími verður þar til hægt verður að gera við hann.