Þrír fluttir á sjúkrahúsið í Neskaupstað eftir bílslys við Djúpavog

Þrír einstaklingar voru í dag fluttir á sjúkrahúsið í Neskaupstað eftir að hafa slasast í tveimur umferðarslysum við Djúpavog eftir mikla vatnavexti á svæðinu. Upplýsingar liggja ekki fyrir um meiðsli fólksins.

Ekki var nóg með að bálhvasst væri um alla Austfirði í dag, heldur hellirigndi líka á Suðurfjörðum. Hringvegurinn er í sundur í Berufirði og einnig skemmdur í Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði. Unnið er að viðgerðum. Þá féll grjót á hann í Kambanesskriðum. Hringvegurinn verður lokaður í nótt við Jökulsá í Lóni sem flæddi yfir hann. Þar verður ekki gert við fyrr en í fyrramálið.

Ingvar Georg Georgsson, slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð, segir að björgunarsveitir hafi aðstoðað sjúkraflutningamenn við að komast leiðar sinnar til að flytja hina slösuðu af slysstað.

Slökkviliðið hafði nóg að gera í dag því það sinnti einnig aðstoð á Stöðvarfirði. Þar varð tjón mikið tjón í bæði roki og rigningu.

Framan af degi var ekki fært á Stöðvarfjörð og því ekki hægt að koma þangað aðstoð. Það hafðist um hálf fimm. Ingvar segir að veðrið hafi þá heldur verið farið að róast og búið að bjarga því sem bjargað varð vegna foks. Lækir í bænum hafi hins vegar verið orðnir eins og stórfljót og til vandræða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.