Fjórar einkaþotur á Egilsstaðaflugvelli

Þeir sem leið hafa átt framhjá flugvellinum á Egilsstöðum eftir hádegi í dag hafa margir veitt því athygli að fjórar einkaþotur eru staddar á vellinum í dag. Þrjár þeirra eru í eigu breska auðjöfursins Jim Ratcliffe.

Vélar Ratcliffe bera einkennisstafina M-INTY, M-OVIE og M-USIC. Á alþjóðlegum flugsíðum má finna upplýsingar um síðustu viðkomu staði vélanna.

Samkvæmt þeim komu vélarnar til landsins seinni partinn í gær frá flugvelli á suðurströnd Bretlands. Dagana þar á undan höfðu þær flakkað milli þess svæðis og Nice á suðurströnd Frakklands, en Ratcliffe á knattspyrnulið borgarinnar. Eins og Austurfrétt hefur greint frá hafa félög á vegum Ratcliffe undanfarin ár keypt upp fjölda jarða í Vopnafirði.

Fjórða vélin, OE-IIX, kom fyrir hádegið frá Bern í Sviss. Hún er í eigu LaudaMotion Executive, sem Niki Lauda, fyrrum þrefaldur heimsmeistari í Formúla 1 kappakstri stofnaði.

Hinn austurríski Lauda lagði fyrir sig flugrekstur í eigin nafni að loknum kappakstursferlinum og náði ágætum árangri. Lauda lést í fyrra en áður hafði RyanAir keypt stóran hluta lággjaldaflugfélags hans. LaudaMotion Executive sérhæfir sig í leiguflugi fyrir fólk í viðskiptaerindum, að því er fram kemur á heimasíðu þess.

OE-IIX er af gerð Bombardier Challenger en hinar þoturnar þrjár Gulfstream.

Samkvæmt reglum um sóttvarnir þurftu þeir sem komu inn í landið með flugvélunum að fara í gegnum skimanir við Covid-19 veirunni. Frá og með deginum í dag þarf að greiða fyrir hverja skimun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.