Fjórir smitaðir á Austurlandi

Fjórir einstaklingar á Austurlandi hafa greinst með covid-19 smit og 160 eru í sóttkví. Verið er að tryggja heilbrigðisþjónustu á Vopnafirði þar sem lykilstarfsmenn eru í sóttkví.

Samkvæmt tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi eru fjórir einstaklingar á Austurlandi með staðfest covid-19 smit. Enginn þeirra er mikið veikur. Smitrakningu tilfellana er lokið.

Tveir hinna smituðu voru áður í sóttkví. Það er í samræmi við landsmeðaltal, en undanfarna viku hafa um 60% þeirra sem greinst hafa með smit á landsvísu þegar verið í sóttkví. Þykir það til marks um að aðgerðir til að hefta útbreiðslu veirunnar séu að bera árangur. Alls eru 160 manns í sóttkví á svæðinu samkvæmt tölum aðgerðastjórnarinnar.

Athygli hefur vakið að misræmi er í tölum opinberra upplýsingasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, covid.is og þeirrar sem yfirvöld á Austurlandi gefa upp. Ekki er fyllilega ljóst af hverju það misræmi stafar, en viðmælendur Austurfréttar hafa bent á að ef fólk sé með lögheimil annars staðar en þar sem það dvelur þegar upp kemur smit eða það er sett í sóttkví skýri að minnsta kosti hluta mismunarins.

Heilbrigðisþjónusta tryggð á Vopnafirði

Í tilkynningu aðgerðastjórnar segir að ljóst sé að fyrir fyrirtæki og stofnanir geti verið þungt högg að missa starfsmenn í einangrun eða sóttkví. Mikilvægt sé því að viðbragðsáætlanir innan þeirra taki mið af þessum möguleika. Í þeim tilvikum sem komin eru upp voru viðbragðsáætlanir til staðar og röskun því lítil.

Heilbrigðisstofnun Austurlands er meðal þeirra stofnana sem hafa þurft að grípa til ráðstafana vegna veirusmits, en fjórtán starfsmenn hennar voru sendir í sóttkví eftir að starfsmaður hennar greindist með smit á þriðjudag.

Áhrifin eru hvað mest á Vopnafirði þar sem tveir starfsmenn af þremur, læknir og hjúkrunarfræðingur, þurftu að fara í sóttkví. Að sögn Guðjóns Haukssonar, forstjóra stofnunarinnra, var strax brugðist við með því að senda þangað lækni og unnið sé að áframhaldandi mönnun þannig að þjónusta haldist þar órofin.

Auka upplýsingagjöf til íbúa

Í tilkynningu aðgerðarstjórnarinnar segir ennfremur að undirbúningur Almannavarnanefndar og aðgerðastjórnar á Austurlandi hafi frá því í lok janúar miðað að því að takast á við smit vegna COVID-19. Ekkert hafi því komið á óvart enn sem komið er, viðbragðsáætlanir verið virkjaðar og þær gengið samkvæmt áætlun. Ekki sé ástæða til að ætla annað en svo verði áfram.

Í byrjun vikunnar voru skilyrði samkomubanns þrengd niður í hámark 20 manna. Starfsmenn aðgerðastjórnar hafa fylgst með hvernig til hefur tekist, meðal annars með heimsóknum í verslanir og á veitingastaði. Nokkrar athugasemdir verið gerðar en heilt yfir eru ráðstafanir til fyrirmyndar.

Á vegum sveitarfélaga á svæðinu er unnið er að greiningu á því hvort útlendingar sem búa hér á svæðinu og dvelja eru að fá nægjanlegar upplýsingar um COVID-19.

Aðgerðastjórn, fyrir hönd almannavarnanefndar, mun senda tilkynningar daglega hér eftir íbúum til upplýsingar um stöðu mála, ábendingar, tilkynningar og fleira. Þær munu birtar á Austurfrétt, logregla.is, á fésbókarsíðu lögreglu og á heimasíðum sveitarfélagana.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.