Fjórtán starfsmenn HSA í sóttkví

Fjórtán starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) hafa verið settir í sóttkví eftir að í ljós kom að starfsmaður hennar væri smitaður af covid-19 veirunni. Forstjóri stofnunarinnar segir hana vel undirbúna og öryggi hennar veikustu skjólstæðinga tryggt.

Þetta staðfestir Guðjón Hauksson, forstjóri stofnunarinnar en smit starfsmannsins á Egilsstöðum var staðfest í gær.

Smitrakningarteymi hefur síðan verið að störfum. Guðjón segir þeirri vinnu miða vel. Alls hafa 17 einstaklingar verið settir í sóttkví, þar af 14 starfsmenn HSA. Uppruni smitsins sem staðfest var í gær er óþekktur en unnið er að því að greina hann.

„Því hefur viss endurskipulagning starfs farið fram til að tryggja nauðsynlega þjónustu,“ segir Guðjón. Sú endurskipulagning hafði farið fram og tekið gildi áður en smitið kom upp.

„Við nutum góðs af því að smit kom seint upp á Austurlandi. Skipulag okkar miðar allt að því að tryggja öryggi þeirra sem eru veikastir,“ segir Guðjón.

Skipulagið felst meðal annars í að skipta upp starfshópum innan HSA og hindra samgang þeirra í milli, að hringt sé í skjólstæðinga áður en þeir komi á heilsugæslu, breytingar á mötuneyti og sérstakt símanúmer fyrir fyrirspurnir um covid-19. Þá var heilsugæslunni í Neskaupstað lokað til að vernda sjúkrahúsið þar.

Smitið í gær breytir því ekki miklu, en þó því að 14 starfsmenn eru farnir heim til sín. „Sumir geta unnið heima og gera það. Við fylgjumst með hvort einkenni koma fram hjá þeim og bregðumst við ef þarf.“

Eftir sem áður er fylgt tilmælum sóttvarnalæknis um sýnatöku. „Við höfum ákveðnar ábendingar og ef fólk uppfyllir þær er það kallað til sýnatöku.“

Hann segir ekki koma á óvart að smit hafi komið upp á Austurlandi. „Allt okkar viðbragð hefur miðast við að hér kæmi upp smit og því erum við undirbúin. Það hefði verið ótrúlegt ef hér hefði ekki komið upp smit.“

Hann áréttar mikilvægi þess að almenningur fylgi tilmælum sóttvarnayfirvalda. „Það er mikilvægt að almenningur virði hömlur á samkomum og gæti sín í hvívetna varðandi alla sóttvörn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.