Fjórum bjargað úr bát við Papey

Fjórum einstaklingum var í kvöld bjargað úr litlum fiskibáti, en leki kom að bátnum eftir að hann tók niður á grynningu austur af Papey.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að stjórnstöð hennar hafi borist neyðarkall frá áhöfn skipsins klukkan 20:55. Strax voru björgunarsveitir á Suðaustur- og Austurlandi kallaðar út á hæsta forgangi. Þá tók þyrla Landhelgisgæslunnar stefnu að slysstað en hún var á æfingu er útkallið kom.

Jafnframt var óskað eftir að skip og bátar í grenndinni héldu á staðinn. Klukkan 21:20 hafði tekist að bjarga þeim fjórum sem voru í áhöfn fiskibátsins um borð í annan fiskibát sem kom á staðinn.

Verið að draga bátinn til Djúpavogs en reynt er að halda honum á floti með dælum um borð. Hafdís, björgunarskip Fáskrúðsfirðinga, er komið á staðinn en björgunarskip frá Hornafirði og Norðfirði voru afturkölluð. Þyrlan er í viðbragðsstöðu á Hornafirði. Umhverfisstofnun hefur verið upplýst um málið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar