„Fleiri mættu muna eftir pappírunum áður en þeir fara á veiðar“

Umhverfisstofnun hefur í fyrsta sinn í sumar haldið úti eftirlitsmanni með hreindýraveiðum allt veiðitímabilið. Eftirlitsmaðurinn segir að almennt séu veiðimenn með sitt á hreinu.


„Hlutverk mitt er að sjá til þess að öll veiðin fari eftir lögum. Ég athuga leyfi hjá veiðimönnum og leiðsögumönnum. Mikilvægast er að þeir séu ekki með nein auka dýr og skjóti sannarlega þau dýr sem þeir hafa leyfi fyrir,“ segir Rakel Sigurveig Kristjánsdóttir.

Rakel réði sig til Umhverfisstofnunar í sumar og hefur frá því veiðin hófst um miðjan júlí verið uppi á fjöllum þar sem flest dýrin eru felld með augað við veiðarnar.

Langflestir taka eftirlitinu vel

Umhverfisstofnun efldi eftirlit með hreindýraveiðunum með að ráða í verkið sérstakan starfsmann. Rakel segir eftirlitið hafa alla jafna gengið vel í sumar.

„Langflestir taka mér vel og eru kurteisir og fínir. Maður finnur fyrir pirringi hjá sumum, sem er ekki jafn gaman, en í sumum tilfellum skiljanlegt þegar menn hafa verið lengi uppi á heiði.

Það mættu fleiri muna eftir pappírunum sínum áður en þeir fara á veiðar. Ég hef fulla trú á að það batni með meira eftirlit.

Flestir eru með hlutina á hreinu en það eru samt margir sem gleyma ákveðnum pappírum, svo sem veiðikortunum eða skotveiðileyfunum sínum í náttstað eða annars staðar.“

Síðustu dagar veiðinnar

Rakel, sem er menntaður líffræðingur með meistaragráðu í umhverfis- og sjálfbærnivísindum frá Svíþjóð, segir það fara eftir álagi í veiðunum hversu mikið hún sé á ferðinni. Hún hefur því fengið frídaga inn á milli á tímabilinu.

Tæp vika er eftir af veiðitímabilinu en því lýkur næsta miðvikudag. Rakel telur veiðina hafa gengið heilt yfir vel í sumar þótt alltaf séu tafir út af veðri.

Eins og oft vill áður er mikið að gera síðustu dagana þegar veiðimenn keppast við að ná dýrunum og voru þrettán leiðsögumenn á ferðinni í morgun. Búið er að veiða tarfakvótann á svæðum eitt, tvö og fimm.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.