Fljótsdalshérað: Starfsmenn leikskólanna vilja fresta sameiningu

baejarskrifstofur_egilsstodum_3.jpg
Starfsmenn leikskólanna Skógarlands og Tjarnarlands vilja að ákvörðun bæjaryfirvalda á Fljótsdalshéraði um að sameina leikskólana verði endurskoðuð. Bæjarstjórnin hafnar því og telur ýmsan ávinning felast í sameiningunni.
„Það er skoðun okkar að of skammur tími sé til stefnu til að sameiginlegt starf geti farið farsællega af staðs strax eftir sumarfrí“ segir í ályktun starfsmanna sem lögð var fram á kynningarfundi um sameiningu leikskólanna fyrir skemmstu. 

Undir ritar á fimmta tug starfsmanna leiksólans nafn sitt og skorará bæjaryfirvöld að endurskoða ákvörðunina. „Vinna þarf að svo viðamiklum breytingum á breiðari grunni en gert hefur verið, þ.e. í sátt og samvinnu við skólasamfélagið.“ Þá hafa trúnaðarmenn á leikskólunum óskað eftir sundurliðun á útreikningi á áætluðum fjárhagslegum ávinningi af sameiningu leikskólanna.
 
Bæði faglegur og fjárhagslegur ávinningur 

Ekki er þó útlit fyrir að hætt verði við ferlið. Í svari bæjarstjórnar við áskoruninni segir að ákvörðunin hafi verið tekin í nóvember og að baki henni liggi bæði fagleg og fjárhagsleg rök. 

„Bæjarstjórn telur hinn faglega ávinning felast m.a. í heildstæðari stefnu í starfi með börnum frá 1 árs upp í 5 ára, betra flæði reynslu, þekkingar og búnaðar milli starfstöðva og að auðveldara verði að bregðast við sveiflum í árgangastærðum. Fjárhagslegur ávinningur verði minni stjórnunarkostnaður sem nemur að lágmarki kr. 5.000.000.- árlega auk þess sem reikna má með sparnaði í innkaupum og öðrum þáttum.“

Haldið áfram

Viðurkennt er að breytingar sem þessar leiði alltaf til óvissu en með „markvissri vinnu sé nægur tími til stefnu til að takast á við þær áskoranir sem fyrir liggja við verkefnið.“

Leikskólastjórum hefur verið falið að segja upp aðstoðarleikskóla- og deildarstjórum upp störfum með starfslokum 31. júlí. Fjölgað hefur verið í samstarfshópi um sameininguna með einum fulltrúa frá hvorum skóla. Í honum eiga að auki fulltrúar úr fræðslunefnd, af fræðslusviði og úr skólasamfélaginu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.