Flokkur fólksins og Viðreisn í sókn í Norðausturkjördæmi
Viðreisn tvöfaldar fylgi sitt í Norðausturkjördæmi samkvæmt nýrri skoðanakönnun Maskínu. Miðflokkurinn mælist áfram stærstur.Könnunin var gerð 22. – 28. október og fyrst birt hjá Vísi. Hún er brotin niður eftir kjördæmum og landssvæðum. Úr Norðausturkjördæmi eru 187 svör, sem er nokkru minna en könnun sem birt var fyrir tíu dögum.
Miðflokkurinn mælist áfram stærstur og með þrjá þingmenn en vantar orðið töluvert mikið upp á þann fjórða. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur tapa nokkru fylgi sem gerir það að verkum að Framsókn tapar þingmanni til Viðreisnar, samanborið við síðustu könnun. Viðreisn og Flokkur fólksins eru í sókn í kjördæminu, eins og á landsvísu.
Annar þingmaður Framsóknar er næstur inn og myndi þá fella út annan mann Sjálfstæðisflokks. Mjög litlu munar á þessum þingmönnum og fyrsta manni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þriðja þingmanni Samfylkingar eða öðrum þingmanni Flokks fólksins.
Rétt er að hafa í huga að reiknað er út frá 10 þingmönnum en réttara er að níu eru kjördæmakjörnir en sá tíundi jöfnunarþingmaður. Þannig hafa úrslit annars staðar áhrif á hann í kosningum og því illmögulegt að segja hvar hann endar. Þetta þýðir að annar þingmaður Sjálfstæðisflokks í kjördæminu er langt í frá öruggur.
Könnunin er einnig brotin niður eftir landshlutum. Fyrir Austurland eru 55 svör og þar mælist Miðflokkurinn stærstur með 19%, Sjálfstæðisflokkurinn fær 18,4%, Flokkur fólksins 15,1%, Viðreisn 12%, Samfylkingin 11,2%, Framsóknarflokkurinn 9,8%, Sósíalistaflokkurinn 6,4% og VG 4,1%. Önnur framboð mælast þar með 1% eða minna.