Flughræddir óttast nýju vélarnar: Allur vafi túlkaður með öryggi farþega í huga

Fréttir af bilunum í nýrri flugvél Flugfélags Íslands virðist hafa skotið flugfarþegum skelk í bringu. Þeir flughræddustu virðast harðneita að stíga upp í hana. Forstjóri Flugfélagsins segir öryggi flugfarþega ávallt í fyrirrúmi.


Viðhorf farþeganna má meðal annars finna í löngum þræði sem skrifaður var á Facebook-síðu Flugfélagsins eftir að nýju Bombardier Q400 vélinni var snúið við á leiðinni austur í Egilsstaði á mánudagskvöld.

„Við þorum ekki aftur í þessa vél og vitum af fjölda fólks sem er sama sinnis. Hvað getið þið gert til að byggja aftur upp traust okkar farþeganna gagnvart þessari „nýju“ vél? Ef þetta væri bíll sem ég hefði keypt notaðan væri ég búin að skila honum,“ skrifar málshefjandinn, Magnfríður Ólöf Pétursdóttir, íbúi á Egilsstöðum.

„Ég mun aldrei fyrir mitt litla líf fljúga með fjölskyldu mína í þessari vél!“ skrifar einn þátttakandinn í umræðunni. Fleiri taka í svipaðan streng. Þeir lýsa upplifun sinni af flughræðslu og segjast frekar kjósa að keyra með fjölskylduna. „Ég með mína flughræðslu myndi aldrei samþykkja flug um borð í einhverju meingölluðu dóti.“

Flugfélagið hefur keypt þrjár Q400 vélar sem leysa Fokker-vélar af hólmi. Þær er keyptar notaðar af FlyBe í Bretlandi en hafa staðið til hliðar þar síðustu misseri. Flugfélagið er samt með fjölda véla sömu gerðar í þjónustu sinni.

Fyrsta vélin var tekin í gagnið hérlendis í byrjun mánaðarins. Forsvarsmenn Flugfélagsins hafa í viðtölum sagt að búast mætti við röskun í byrjun, meðal annars því koma þyrfti upp varahlutalager og læra á vélarnar.

Þrisvar sinnum hefur vélin annað hvort ekki farið austur eða verið snúið við vegna bilunar. Forstjóri Flugfélagsins viðurkenndi í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að röskunin væri meiri en búist hefði verið við.

Í svari við fyrirspurn Austurfréttar vegna málsins ítrekar Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélagsins, að Q400 vélarnar hafi reynst víða um heim.

„Nýja vélin okkar var sett í umfangsmiklar breytingar og afar viðamikla skoðun áður en hún kom hingað til lands og það er því ekki óeðlilegt þó eitthvað komi uppá. Allir flugrekstraraðilar lenda í því að minniháttar bilanir eða hnökrar koma upp í rekstrinum og við vinnum okkur út úr því eins og aðrir.“

Hann segir um minniháttar atvik hafa verið að ræða í vökvakerfi vélarinnar á mánudagskvöld. „Öryggiskröfur okkar eru mjög miklar og í algjöru fyrirrúmi og meðan við erum að taka nýju vélarnar í notkun er að sjálfsögðu verið að stilla þær af inn í okkar rekstur. Allur vafi er túlkaður með ítrustu öryggiskröfur í huga og því höfum við frekar lent vélinni en að halda flugi áfram.

Við biðjumst að sjálfsögðu velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið farþegum en eins og áður sagði eru þetta minniháttar atvik og öryggi farþega er alltaf sett á oddinn.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.