„Flugið er lífsnauðsynlegt fyrir okkur“

Oddviti Vopnafjarðarhrepps segir það koma illa við íbúa þar ef tillögur um að niðurgreiðslu flugs þangað verði hætt. Vegasamgöngur dugi ekki til að bæta upp þann skaða sem verði ef fluginu verður hætt.

„Flugið er okkur lífsnauðsynlegt. Við höfum þrjár útgönguleiðir héðan en þær eru allar yfir háa fjallvegi. Við erum á snjóasvæði þannig hér er vetur fleiri mánuði en sumar. Fólk verður að gera sér grein fyrir þessu,“ segir Sigríður Bragadóttir, oddviti Vopnafjarðarhrepps.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, kynnti fyrir viku tillögur um stefnu í almenningssamgöngum. Þar er lagt til að hætt verði að styrkja flug til Vopnafjarðar, Hafnar í Hornafirði og Þórshafnar frá 1. apríl á næsta ári.

Almenningsvagnar í stað flugs

Í rökstuðningi fyrir tillögunum er bent á að styrkur við flug til þessara staða nemi 200 milljónum króna, eða um 10 þúsund á hvern farþega til Hafnar en 70 þúsund til Þórshafnar og Vopnafjarðar.

Þar er talið betra að styrkja almenningsvagna í veg fyrir flug á Húsavík og Egilsstöðum. Þannig fáist tenging fyrir brothættar byggðir á Raufarhöfn og í Öxarfirði við almenningssamgöngukerfið í norðri og fyrir Skaftafellssýslur í suðri. Ekki sé eðlilegt að halda úti tveimur styrktum almenningssamgöngumátum í beinni samkeppni.

Sigríður bendir á að í stefnunni sé lagt til að keyrt verði þrjá daga í viku, sem sé ekki nægjanleg þjónusta. Flogið er milli Vopnafjarðar og Akureyrar alla virka daga. „Ef fólki er alvara um að halda landinu í byggð þá þarf að sýna það í verki.“

Óttast um sjúkraflugið

Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps mótmælti hugmyndunum á fundi sínum á miðvikudag. Í bókun hennar er varað við að þekkt sé að ef áætlunarflug leggist af þá hverfi fjármagn til viðhalds flugvalla. Sveitarstjórnin hefur áhyggjur af áhrifum þess á sjúkraflug. „Þetta hefur allt að segja fyrir sjúkraflugið. Það er ekki alltaf hlaupið af því að keyra héðan,“ segir Sigríður.

Í bókuninni er einnig bent á að farþegum milli Vopnafjarðar og Akureyrar hafi fjölgað um 35,7% frá 2016. Lægri fargjöld eigi þar stóran hluta af máli og einkennilegt sé að leggja til að draga úr flugsamgöngum á landsbyggðinni þegar á borðinu séu hugmyndir um að efla það í formi skosku leiðarinnar.

Í tillögunum kemur fram að sex flugleiðir á Íslandi séu styrktar af ríkinu í dag. Flestir farþegar séu milli Reykjavíkur og Hafnar, þeir hafi verið um 10.000 á ári síðustu tvö ár og heldur fjölgað. Farþegar milli Akureyrar og Vopnafjarðar hefur fækkað frá tímabilinu 2012-2014 en fjölgað á ný og síðustu tvö ár hafa um 1000 manns nýtt sér fluglegginn á ári. „Við hefðum frekar séð fyrir okkur að enn fleiri myndu notfæra sér flugið og þá væri jafnvel forsenda fyrir fleiri ferðum,“ segir Sigríður.

Hún segir tillöguna hafa komið Vopnfirðingum nokkuð á óvart og þeir hafi þegar heyrt í þingmönnum með von um að tillögurnar verði ekki að veruleika. „Þetta kom sem köld vatnsgusa framan í okkur. Þetta er hins vegar ekkert sem hefur verið samþykkt enn á Alþingi og ég vona að tillögurnar fari ekki svona í gegn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar