Flúor yfir viðmiðunarmörkum í júní

Flúor mældist yfir viðmiðunarmörkum í sýnum sem tekin voru í Reyðarfirði í júní. Hættara er við að flúorgildin aukist þegar sumrin eru þurr og hlý líkt og verið hefur. Áfram verður fylgst með flúorlosun frá álverinu í Reyðarfirði.

Það er Náttúrustofa Austurlands sem mælir styrks flúors í grasi á nokkrum stöðum umhverfis álver Alcoa Fjarðaáls. Mælt er sex sinnum á hverju sumri á alls 34 stöðum í Reyðarfirði, tvisvar í hverjum mánuði og í lokin reiknað meðaltal sumarsins.

Niðurstöður mælinga í júní liggja fyrir og var meðaltalið sýnanna tveggja sem þá voru tekin yfir viðmiðunarmörkum eða 46,1 µg F/g í grasi. Í tilkynningu frá Fjarðaáli segir að þetta þurfi ekki að koma á óvart þar sem sumarið hafi verið snemma á ferðinni eystra og verið þurrt og sólríkt.

„Í Reyðarfirði hafa verið miklar stillur og hátt hitastig sem orsaka svokölluð hitahvörf í firðinum og það er einn þáttur sem hefur áhrif á mæliniðurstöður,“ segir þar.

Í tilkynningunni segir að áfram verði fylgst með losuninni. Þá hafi verið unnið að endurbótum þar sem skipt hafi verið um síupoka í reykhreinsivirki sem gefi góða hreinsun. Þá sé flúorlosun álversins það sem af er ári langt innan marka.

Fólki á svæðinu er ekki talin stafa hætta af flúorútblæstrinum en meiri athygli er á grasbítum. Fari meðaltal sumarsins yfir 40 µg F/g í grasi kallar það á auknar rannsóknir og eftirlit með sauðfé. Mörkin fyrir hross eru mun hærri eða 150 µg F/g í grasi.

Niðurstöður mælinga í heild má finna á vef Umhverfisstofnunar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar