Flytja skal minnst þrjú söguleg hús á Seyðisfirði sem fyrst

Ráðlegt er að flytja og finna nýjan stað minnst þrjú menningarsöguleg hús á Seyðisfirði með tilliti til hugsanlegra snjó- eða skriðufalla í framtíðinni.

Þetta er mat sérstakrar nefndar sem sett var saman eftir skriðuföllin á Seyðisfirði í desember á síðasta ári sem skemmdu alls tíu hús og jöfnuðu nokkur þeirra við jörðu.

Nefndinni var ætlað að gera tillögur um flutning sögulegra húsa sem gætu verið í hættu ef fleiri aurskriður falla á bæinn í framtíðinni. Setur nefndin þrjú hús í forgang og hvetur sérstaklega til endurbyggingar eins húss.

Húsin sem um ræðir standa öll við Hafnargötu. Ráðhúsið Hafnargötu 44, Garður Hafnargötu 42 og Angró Hafnargötu 37. Þá telur nefndin ástæðu til að endurbyggja Turninn svokallaða sem gjarnan var kallaður fyrsta sjoppan á Íslandi og ennfremur sé brýnt að finna lausn á framtíðarvarðveislu Þórshamars.

Nefndin tiltekur fleiri eldri byggingar í bænum sem ráðlegt væri að flytja og eða endurbyggja á nýjum stað en þær eru að mestu leyti í einkaeigu og framhaldið ráðist af því hvað eigendur vilji gera.

* Mynd Ómar

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.