Foreldrar gagnrýna samkrull ísbúðar og rafrettuverslunar
Foreldrar á Reyðarfirði eru gagnrýnir samkrull ísbúðar og verslunar með rafrettur undir sama heiti og merki á staðnum. Eigandi fyrirtækjanna segir að farið sé í einu og öllu eftir landslögum sem geri ráð fyrir skírum aðskilnaði rafretta frá annarri vöru.Ísbúð verður opnuð í húsnæðinu sem áður hýsti Shell-stöðina á Reyðarfirði á sunnudag en þar hefur rafrettuverslunin, Djákninn verið til húsa síðan í haust. „Húsið er 150 fermetrar og Djákninn er í 20 fm lokuðu rými,“ segir Gunnar Viðar Þórarinsson, eigandi ísbúðarinnar og Djáknans.
Inn í þann hluta er 18 ára aldurstakmark. Fyrsta verslun Djáknans opnaði á Akureyri 2016 og í okkar verslunum hefur alltaf verið aldurstakmark, þótt það hafi ekki verið samkvæmt lögum fyrr en frá 1. mars.“ Gunnar bendir á að lögin krefjist þess meðal annars að þar sé sérstakt starfsfólk og rýmið stúkað af sem Djákninn fylgi fullkomlega eftir.
Aðspurður segir hann að aldurstakmarkinu sé framfylgt með því að starfsmenn spyrji viðskiptavini um skilríki líti þeir út fyrir að vera yngri en 27 ára. Auðveldara sé að fylgja eftir aldurstakmarki á Reyðarfirði þar sem fólk þekkist heldur en í Reykjavík og Akureyri þar sem aðrar verslanir Djáknans eru.
„Það hefur ekki reynt á aldurstakmarkið á Reyðarfirði. Um leið og við opnuðum fór fram mjög opin umræða og ungmenni hafa virt þetta takmark. Við getum ekki borið ábyrgð á því ef fullorðinn einstaklingur afhendir yngri einstaklingi vöru en það gerist ekki innan veggja hjá okkur.“
Foreldrar ræði gagnrýnið um markaðssetningu við börn sín
Samhliða opnun ísbúðarinnar verður búðin merkt með nafninu „Shake n‘ Vape“ og merki sem sýnir bæði ís og rafrettu. Það samkrull er það sem helst hefur farið fyrir brjóstið á foreldrum á Reyðarfirði sem hafa áhyggjur að verið sé að reyna að markaðssetja rafrettur til ungmenna með þessum hætti. „Við hvetjum foreldra til að nýta tækifærið til að ræða við börn sín um gagnrýni á markaðssetningu,“ segir Bryndís Guðmundsdóttir, formaður foreldrafélags grunnskólans á Reyðarfirði.
Samkvæmt nýjum lögum um rafrettur eru hvers konar auglýsingar á refrettum, áfyllingum, neyslu eða meðferð bönnuð, sem og að hafa vöruna sýnilega fyrr en inn í sérverslun er komið. Neytendastofa hefur markaðseftirlit með rafrettum. Þar fengust þær upplýsingar að stofnuninni hefðu borist ábendingar um verslunina. Þær hafi verið sendar áfram til Fjölmiðlanefndar sem ætlað sé að framfylgja auglýsingabanni. Hjá nefndinni fékkst staðfest að erindi hefði verið móttekið eftir hádegi í dag og væri til skoðunar.
Merki fyrir þá þjónustu sem í húsinu er
Gunnar Viðar segir að viðbrögðin við nafninu og merkinu hafi komið honum á óvart en hann hafi ekki í hyggju að endurskoða það. Hann hafnar því að því sé ætlað að ýta rafrettunum að ungmennum. „Þetta er ekki ætlað til að markaðssetja til ungmenna. Þetta er merki fyrir húsið og þá þjónustu sem í því er.“
Aðspurður segir hann að ekki hafi verið hugsað fyrir sérstöku nafni á ísbúðina. „Shake n‘ Vape nafnið er hugmynd úr ýmsum áttum, meðal annars vinnu með hugmyndasmið. Við gerðum líka könnun, við vorum með spurningalista í búðinni og undantekningarlaust varð þetta nafn fyrir valinu.
Rafretturnar hafa gengið vel en markhópurinn er afmarkaður og við vildum nýta húsið betur þannig við opnuðum ísbúð. Við höfum heyrt í mörgum sem eru jákvæðir en neikvæðu raddirnar eru háværar.
Í minni búð er farið í einu og öllu eftir reglum um að selja eingöngu 18 ára og eldri. Ef foreldrar hafa yfir höfuð áhyggjur af því að börnin þeirra byrji fyrr að veipa þá er það á þeirra ábyrgð. Er þá ekki allt eins hægt að loka á ÁTVR eða aðrar sjoppur sem selja sígarettur.“
Byrjaði að selja rafrettur til að hjálpa fólki að hætta að reykja tóbak
Rafrettur eru tiltölulega nýleg vara á heimsvísu og eru ekki enn til langtímarannsóknir sem með óyggjandi hætti sýna fram á skaðleysi eða skaðsemi þeirra. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lagt áherslu á að meðan skaðleysi varanna hefur ekki verið sannað setji ríki sömu reglur um rafsígarettur og tóbaksreykingar.
Það gerðu íslensk stjórnvöld með reglum sem samþykkt voru á Alþingi síðasta sumar og hafa tekið gildi í áföngum. Í umsögn Læknafélags Íslands um frumvarpið segir að rafrettur geti leitt til nikótínfíknar og þar með hefðbundinnar tóbaksneyslu. Félagið lýsir sig þó fylgjandi aðgengi fullorðinna sem vilja nýta rafrettur til að minnka tóbaksneyslu sínar.
Gunnar Viðar segir það hafa verið hugsunina þegar hann opnaði fyrstu verslun Djáknans 2016. „Fyrirtækið var stofnað til að hætta fólki að hjálpa að reykja og margir hafa hætt vegna aðkomu okkar. Faðir minn varð fyrstur, hann hafði lengi reynt að hætta að reykja, en tókst loks eftir að ég gaf honum rafrettu. Þá sá ég að rafrettan er það eina sem virkar.
Þetta átti að verða lítil sjoppa á Akureyri en ég gerði mér ekki grein fyrir hver útbreiðslan yrði því við erum komin með 12 manna fyrirtæki.“