Landnámsminjar á framkvæmdasvæði snjóflóðavarnagarða á Seyðisfirði

Ekki verður hægt að hefja framkvæmdir við nýja snjóflóðavarnagarða á Seyðisfirði fyrr en Minjastofnun hefur gefið út að óhætt sé að hefja vinnu. Á fyrirhugðu framkvæmdasvæði er að finna minjar allt frá landsnámsöld sem stofnun vill að verði rannsakaðar. Skoðað er hvort hægt sé að breyta hönnun garðanna til að hlífa minjum og flýta framkvæmdum.

Áformað er að byggja þrjá varnargarða til að verja byggðina í Bakkahverfi, Firði og á Öldunni. Með þeim munu öll íbúðarhús sem í dag eru á hæsta hættusvæði færast á lægsta hættusvæði. Heildarlengd garðanna verður yfir 1 km og framkvæmdasvæðið nær yfir 23 hektara.

Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum varnarmannvirkjanna var kynnt á íbúafundi á Seyðisfirði í gær. Þar kom fram að neikvæðustu áhrif þeirra eru annars vegar á ásýnd landslags, hins vegar fornminjar.

Yfir 60 minjar

Í tengslum við umhverfismatið skráði Byggðasafn Skagfirðinga minjar á svæðinu. Alls eru 61 minjar skráðar. Af þeim tengjast 10 sögu hernáms á Seyðisfirði eða 20. aldar sögu og njóta því ekki sérstakrar verndar.

Á svæðinu er einnig fjöldi rústa húsa sem urðu undir snjóflóðinu sem féll á bæinn árið 1885. Það er hið mannskæðasta sem heimildir eru um hérlendis en 24 fórust í því.

Í flestum tilfellum telst nóg að skrá minjarnar en ekki alltaf. Í áliti Minjastofnunar um umhverfismatið, sem er í samræmi við ráðleggingar fornleifafræðinga Byggðasafnsins, er beðið um að teknir verði ríflega 20 könnunarskurðir. Þeir kunna að leiða til farið verði fram á frekari rannsóknir.

Leifar frá landnámstíma?

Merkustu minjarnar á svæðinu eru á bæjarstæði bæjarins Fjarðar. Jafnvel er talið Bjólfur, sem nam land í Seyðisfirði, hafi búið þar. Könnunarskurður var tekinn í hólinn árið 1998 sýndi leifar mannvirkja-og mannvistar frá 10. öld til upphafs 20. aldar og niður á 1,7 metra dýpi.

Hluti gamla bæjarhólsins á Firði er innan þess svæðis sem verður raskað. Minjastofnun segir að ómögulegt sé að fá rétta mynd af hólnum nema hann hafi verið grafinn í heilu lagi. Hún bendir þó á að mögulegt sé að færa til framkvæmdasvæðið þannig að ekki þurfi að raska hólnum. Á fundinum í gær kom fram að verið væri að kanna hvort hægt væri að breyta hönnun mannvirkja á þann hátt. Ef það verður ekki þarf að grafa hólinn upp að fullu. Í umsögn Minjastofnunar segir að það verði dýrt, kostnaðarsamt og tímafrekt.

Stofnunin krefst þess að tvær rústir í viðbót verði grafnar upp og rannsakaðar að fullu. Annars vegar er um að ræða húsatóft sem kann að geyma minjar allt frá landnámi. Hins vegar rústir kornmyllu sem talin er vera frá 18. eða 19. öld.

Ennfremur telur stofnunin þörf á að taka borkjarna í túni Fjarðarbæjarins til að kanna hvaða minjar þar kunni að felast, en heimildir eru um forna kirkju og kirkjugarð þar en staðsetning kirkjunnar er ekki að fullu ljós.

Fjármagn og fornleifar

Áætlaður framkvæmdatími við garðana er 4-6 ár, eftir fjárveitingum. Hafsteinn Pálsson, verkfræðingur úr umhverfisráðuneytinu sagði í gær að ef allt gengi snurðulaust fyrir sig héðan í frá yrði hægt að hefja framkvæmdir næsta sumar. Stærstu óvissuþættirnir virðast annars vegar vera fjármögnunin, þar sem ekki er ljóst hvort fjármálaáætlanir ríkisins standast eftir Covid-19 faraldurinn, hins vegar fornleifarnar.

Ekki er hægt að hefja framkvæmdir fyrr en Minjastofnun hefur gefið út að það sé óhætt með tilliti til fornminja. Stefnt er að skráningu fornminjanna í sumar. Kristinn Magnússon, verkefnisstjóri hjá Minjastofnun, segir í svari við fyrirspurn Austurfréttar erfitt að fullyrða á þessari stundu um umfang fornleifarannsókna eða hve langan tíma taki.

Það skýrist ekki fyrr en búið verði að taka könnunarskurðina sem farið er fram á. Þá komi í ljós hvor rannsaka þurfi ákveðnar rústir frekar. Hugsanlega sé hægt að vinna að ákveðnum rannsóknum samtímis því sem framkvæmdir fari af stað. Ef ráðast þarf í uppgröft bæjarhólsins verði það langumfangsmesta og tímafrekasta rannsóknin sem gera þarf.

Ásýnd á varnargarðana. Tölvuteikning: Efla, Verkís og Landslag

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.