„Forritun er færni til framtíðar“

„Þegar ég tók við starfinu byrjaði ég á því að fara yfir stöðuna til þess að átta mig á því hvaða búnaður væri til og satt best að segja var hún ekki beisin,“ segir Birgir Jónsson, skólastjóri Grunnskóla Eskifjarðar, sem á dögunum barst höfðingleg gjöf frá Eskju til eflingar tæknikennslu.


Birgir segir að hann og Guðný Margrét Bjarnadóttir, upplýsingakennari, hafi lagt á ráðin um hvað best væri að gera í stöðunni.

„Við fengum fund með Ernu Þorsteinsdóttur, stjórnarformanni Eskju, þar sem við greindum frá því hvert við vildum stefna – við vildum auka forritunarkennslu og færa okkur þannig nær nútímanum. Við komum með tillögur að því sem okkur vantaði, henni leist strax vel á, lagði hana fyrir stjórina sem samþykkti,“ segir Birgir.
Eskja gaf skólanum Osmo, Sphero-kúlur og vélmennin Cue og Dash, en allt er það búnaður til forritunarkennslu.

„Til þess að styðja við þetta verður upplýsingatækni kennd tvisvar í viku í öllum bekkjum og mun forritun þar skipa stóran sess. Það er rúmlega helmings aukning frá því í fyrra, en þá var fagið aðeins skylda fyrir 1.-7. bekk og bara einn tími á viku.

Forritun jafn mikilvæg og lestur og skrift
Birgir segir forritun sérstaklega mikilvægan þátt í öllu námi í dag. „Menn segja að þetta sé álíka mikilvægt í framtíðinni og það að kunna að lesa og skrifa í dag, forritun er færni til framtíðar. Við vitum í raun ekki hvað gerist í framtíðinni en við vitum að þessi þáttur verður einn af þeim mikilvægari að kunna. Það er einnig okkar verk að kynna nemendum hvernig hægt er að flétta tæknina við allt, hvort sem það er í gegnum forritun eða annað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar