Forsætisráðherra í heimsókn í Fjarðabyggð

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heimsótti í gær stofnanir og fyrirtæki í Fjarðabyggð auk þess að funda með bæjarstjórninni. Katrín segist ánægð með heimsóknina og hafa fengið að sjá hin margvíslegu tækifæri sem séu á Austfjörðum.

„Jöfn tækifæri óháð búsetu er eitt af stóru málunum í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Það er mikilvægt verkefni fyrir alla kjörna fulltrúa að kynna sér mismunandi aðstæður, atvinnulíf og samfélög um land allt og þessi heimsókn í Fjarðabyggð var einstaklega vel heppnuð í því skyni.

Við áttum fund með bæjarstjórn Fjarðabyggðar og fulltrúum Austurbrúar. Þar var meðal annars rætt um menntun, nýsköpun og umhverfismál sem eru meðal lykilþátta í nýrri sóknaráætlun Austurlands. Þá ræddum við einnig sjávarútveg, iðnað, fiskeldi, ferðaþjónustu, samgöngur og fjarskipti,“ segir Katrín um heimsóknina.

Ferðin hófst í Verkmenntaskóla Austurlands þar sem Katrín hitti bæði nemendur og kennara. Meðal þess sem bar þar á góma var hvort breyta eigi klukkunni og hvort íslensk ungmenni sofi nóg. Skólinn hefur fengið grænfánann og segir Katrín að gaman hafi verið að sjá ýmis ummerki þar um sjálfbærni og umhverfisvernd.

Í Neskaupstað kynnti Katrín sér einnig áform um Múlann sem nýta mun húsnæðið sem áður hýsti kjörbúðina Nesbakka. Múlinn er nýr klasi sem Katrín telur að geti skapað ýmis tækifæri.

Þá var komið við á Eskifirði og farið út í eldiskvíar Laxa við Sigmundarhús, þjónustustöð Egersund við laxeldið skoðuð og komið við í vinnslusal Eskju. „Hann er glæsilegur en hefði verið enn meira gaman ef loðnan væri komin og vinnslan í gangi,“ segir Katrín.

Þá var ferðaþjónustan á Mjóeyri heimsótt og aðstæður ferðaþjónustunnar á Austurlandi ræddar. „Það hefur verið unnin flott vinna um áfangastaði á Austurlandi í samvinnu fyrirtækjanna og Austurbrúar þar sem sjá má hversu miklir möguleikar eru fyrir ferðamenn í þessum landshluta,“ segir Katrín.

Hún kveðst ánægð með ferðina. „Það er ómetanlegt fyrir kjörna fulltrúa að sjá hlutina með eigin augum og kynnast þannig aðstæðum á hverjum stað. Þessi heimsókn er mér dýrmæt inn í framtíðarumræðu um öll þessi málefni.“

Katrín ræðir við nemendur í VA. Mynd: Úr einkasafni


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.