Forstjóri Fjarðaáls meðal fremstu kvenstjórnenda ársins

janne_sigurdsson_web.jpg
Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, hlaut nýlega Stevie-gullverðlaunin sem forstjóri ársins í hópi kvenna í atvinnurekstri í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku. Verðlaunaafhendingin fór fram í New York fyrr í mánuðinum.

Janne hlaut verðlaunin fyrir þátttöku í uppbyggingu, eflingu og rekstri álvers Alcoa við Reyðarfjörð á þeim sex árum sem liðin eru frá því að hún gekk til liðs við Alcoa. Á þessum tíma hefur hún stjórnað mikilvægum umbótaverkefnum, lagt sig fram um að skapa öruggt vinnuumhverfi í álverinu og náð miklum árangri í að auka starfsánægju í fyrirtækinu. Hún hefur einnig tekið virkan þátt í að byggja upp samfélagið á Austurlandi.

„Ég er mjög glöð yfir því að hafa fengið þetta tækifæri, að hafa verið með frá upphafi í byggingu og gangsetningu álversins og koma fyrirtækinu í þá stöðu sem það er í núna. Íbúar á svæðinu og sveitarstjórnir hafa stutt vel við bakið á okkur og staðið með Fjarðaáli frá upphafi,“ segir Janne. 

„Mér er mikill heiður að því að hljóta gullverðlaun Stevie® sem stjórnandi ársins í hópi kvenna í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku.“

Alþjóðleg verðlaun 
 
Stevie verðlaunin eru alþjóðleg verðlaun sem veitt eru árlega þeim sem skara fram úr í stjórnun stofnana og fyrirtækja um allan heim. Rúmlega 200 stjórnendur sátu í dómnefndinni sem valdi Stevie gull-, silfur- og bronsverðlaunahafa ársins í ýmsum flokkum. 

Almennt eru þeir sem hljóta viðurkenninguna kallaðir „the Stevies” sem dregið er af gríska orðinu fyrir krýnda, eða þá sem bera kórónu. „Þær konur sem hlutu Stevie-viðurkenningarnar í ár eru einstakar afrekskonur. 

Þetta er tilkomumesti hópur sem við höfum séð frá upphafi. Velgengni þeirra er hvatning fyrir aðrar konur um allan heim sem vilja koma á stofn og reka fyrirtæki, og láta til sín taka í atvinnulífinu,“ sagði Michael Gallagher, formaður og stofnandi Stevie Awards.

Hver er Janne? 
 
Janne Sigurðsson er dönsk að uppruna, fædd í Álaborg í Danmörku árið 1966. Hún útskrifaðist 1995 sem cand scient í stærðfræði og tölvunarfræði frá Háskólanum í Álaborg. Hún hefur síðan þá aflað sér víðtækrar reynslu af stjórnunarstörfum hjá ýmsum fyrirtækjum í Danmörku og hjá Fjarðaáli við Reyðarfjörð, þangað sem hún réðst til starfa í maí árið 2006. 

Janne hóf starfsferilinn hjá álverinu sem framkvæmdastjóri upplýsingatækni. Fáum mánuðum síðar varð hún framkvæmdastjóri framleiðsluþróunar og framkvæmdastjóri kerskála var hún á árunum 2008 til 2010. 

Hún varð framkvæmdastjóri framleiðslu í apríl 2010, en þann 1. janúar 2012 var hún ráðin forstjóri fyrirtækisins í stað Tómasar Más Sigurðssonar sem tók við starfi forstjóra Alcoa í Evrópu með aðsetri í Genf.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar