Forval verktaka við Norðfjarðargöng auglýst: 10,5 milljarðar á fjórum árum

nordfjardargong_tolvumynd.jpg
Vegagerðin hefur auglýst forval verktaka vegna framkvæmda við ný Norðfjarðargöng. Gert er ráð fyrir að vinna við göngin hefjist næsta haust og taki 3-4 ár. Fjárveitingar til verksins eru 10,5 milljarðar á fjórum árum. Byggja þarf upp nýja vegi og brýr bæði Eskifjarðar- og Norðfjarðarmegin.

Gert er ráð fyrir að meginþungi framkvæmdanna verði árin 2014-2016. Verktökum gefst færi á að skila inn forvalsgögnum til 13. nóvember og þeir geta fengið útboðsgögn í lok janúar 2013. Forvalsgögnin eru aðgengileg frá og með morgundeginum og er forvalið auglýst á evrópska efnahagssvæðinu.

Ný Norðfjarðargöng verða alls 7.908 metrar með vegskálum. Byggja þarf upp nýja vegi báðum megin. Nýir vegir Eskifjarðarmegin verða um tveir kílómetrar en 5,3 km Norðfjarðarmegin.

Einnig verða gerðar tvær brýr, Eskifjarðará 38 m og Norðfjarðará 48 m og verða þær boðnar út sérstaklega.

Í framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar, þar sem forvalið er auglýst, segir að markmiðið með nýjum göngum sé að styrkja byggðarlög á Austurlandi með bættu vegsambandi á milli þéttbýlisstaða, tryggja greiðar samgöngur og auka umferðaröryggi.

Núverandi vegi um Oddsskarðsgöng sem lýst sem vegi sem uppfylli ekki á köflum „nútímakröfur um umferðaröryggi og akstursþægindi. Hann er brattur, með kröppum beygjum og takmarkaðri sjónlengd.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar