Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins: Bætt hagstjórn aðalmálið
Frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi segjast leggja áherslu á atvinnumál í fjórðungnum. Þeir gagnrýndu efnahagsstjórn undanfarinna ára harðlega á opnum framboðsfundi á Egilsstöðum á laugardag. Tveir sækjast eftir fyrsta sæti listans.
Þingmennirnir Tryggvi Þór Herbertsson og Kristján Þór Júlíusson takast þar á um oddvitasætið sem Kristján Þór gegndi í síðustu þingkosningum. Tryggvi Þór lýsti því á fundinum að hann hefði þráð að gera þjóðfélaginu og kjördæminu gagn og því ákveðið að gefa kost á sér í efsta sætið.
Hann sagði að aðalatriðið yrð að tryggja efnahagslega velferð heimilanna með atvinnu. Þar á atriði væri öryggi borganna hvað snerti heilbrigðisþjónustu, löggæslu og menntun barna. Að þessum þáttum hefði verið vegið undanfarin fjögur ár.
Kristján Þór sagði að það væri ekki einleikur að vera oddviti heldur þyrfti þar að gæta margra ólíkra hagsmuna. Oddvitinn yrði því að hafa þekkingu á kjördæminu og traust, burði, kjark og þor til að takast á við þau verkefni sem ráðast þyrfti í kjördæminu til góðs. Hann sagðist bjartsýnn fyrir hönd flokksins í kjördæminu í vor og bætti við hann teldi ekkert kjördæmi búa yfir sömu sóknarfærum til að leggja sitt af mörkum í þjóðarbúið.
Verðbólga og vísitala vandamál
Slagurinn er ekki síður harður um annað sætið sem fjórir gefa kost á sér í: Ísak Jóhann Ólafsson, framkvæmdastjóri á Egilsstöðum, Erla S. Ragnarsdóttir, kennari Hafnarfirði, Ingvi Ingvason, tónlistarmaður á Akureyri og Valgerður Gunnarsdóttir, skólameistari Framhaldsskólans á Laugum.
Ísak gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir slaka hagstjórn þar sem illa hefði gengið að koma böndum á verðbólguna. Endurskoða þyrfti skattakerfið sem ríkisstjórnin hefði breytt að meðaltali einu sinni á viku á valdtíð sinni.
Erla sagði ríkisvæðingu velferðarþjónustunnar „mislukkað ævintýri.“ Til að glæða atvinnulífið vill hún einfalda skattkerfið og einfalda rekstrarumhverfi fyrirtækja. Fara yrði varlega í skattlagningu á atvinnuvegi eins og ferðaþjónustuna og veiðileyfagjaldið væri „hneisa.“
Ingvi Rafn gagnrýndi efnahagsstjórn undanfarinna ára. Vextir væru of háir og vandamál væru við verðtryggingu og vísitölubyggingu. Þróunin hefði verið neikvæð undanfarna áratugi og það sem boðið hefði upp á virkaði ekki. Því þyrfti breytingar. Ingvi sagðist ósáttur við að fjármagnseigendur hefðu verið verndaðir eð skuldarar orðið að taka öllu þegjandi og hljóðalaust.
Valgerður gagnrýndi að í Þingeyjasýslum hefðu menn verið dregnir á asnaeyrunum árum saman með fyrirheitum um álver á Bakka. Stór fyrirtæki skipti máli því þau skili mestum arði inn í samfélagið. Hún taldi mikil tækifæri í ferðaþjónustu á svæðinu.
Þurfum alltaf að leggjast á hnén og biðja um lágmarksþjónustu
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, sem sækist eftir þriðja sætinu lýsti yfir vilja sínum til að minnka skilningsleysið milli höfuðborgar og landsbyggðar. „Við hér stöndum vel undir okkur og borgum með okkur en þurfum samt að leggjast alltaf á hnén og biðja um aðstoð til að koma her upp lágmarksþjónustu.“ Bætt hagstjórn er að hennar mati efst á blaði fyrir kosningarnar í vor.
Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri á Eskifirði sem sækist eftir fjórða sætinu, sagði að ekki þyrfti að útskýra hvað hefði illa farið í stjórnun hins opinbera undanfarin ár. Sjálfstæðismenn þyrftu að „endurvekja bjartsýni, von og trú um betri framtíð.“ Hagstjórnin væri aðalmálið. Alþingismenn hefðu verið eins og „svín í hveiti“ undanarna áratugi. Fyrir það hefðu heimilin liðið. Þá hefði verið eytt í lúxus eins og Hörpuna, þjóðfund og umboðsmann skuldara á meðan vegið hefði verið að grunnþjónustu eins og löggæslu og heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni á sama tíma.
Bergur Þorri Benjamínsson, sem hefur lýst yfir áhuga sínum á fimmta sætinu, sagði að alltaf væri verið að stofna „ný og ný ríkisbákn“ en ekkert sæist af þeim úti á landi. Hann vill að einstaklingurinn fái að hjálpa sér sjálfur.