Framkvæmdaleyfi veitt vegna stækkunar Mjóeyrarhafnar
Fyrr í mánuðinum fékkst formlegt framkvæmdaleyfi vegna 2. áfanga landfyllingar Mjóeyrarhafnar í Reyðarfirði en verktakar hafa þegar hafist handa að hluta til. Gert er ráð fyrir að það taki um fimm ár að ljúka þessum hluta verksins.
Stefnt hefur verið að því lengi að gera Mjóeyrarhöfnina að vaxtarsvæði fyrir ýmsa hafnsækna starfsemi sveitarfélagsins enda á kjörstað nokkurn veginn mitt á milli þéttbýlanna á Reyðarfirði og Eskifirði.
Má því gera ráð fyrir allmiklum umsvifum við höfnina umfram það sem þegar er raunin næstu árin en ekki aðeins skal lengja núverandi Mjóeyrarbryggju til muna heldur og byggja aðra bryggju.
Sjálf Mjóeyrarbryggjan verður lengd til vesturs um 50 til 70 metra með stálþili alla leið að nýrri bryggju, Framnesbryggju, sem mun státa af allt að 550 metra löngum hafnarkanti. Skil verða þó á milli með broti á hafnarkantinum. Hvernig nákvæmlega uppskipting verður á milli verður þó ekki ákveðið fyrir en lokahönnun liggur fyrir.
Þá skal og ljúka uppbyggingu grjótvarnar vestanvert á landfyllingunni sem og ljúka landfyllingu sem þegar er komin að nýja hafnarkantinum til suðurs.
Stóraukin umsvif verða næstu árin á Mjóeyrinni en sérfræðingar gefa sér allt að fimm ára framkvæmdatíma. Mynd Fjarðabyggð