Framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Stapa hættur vegna eigna í aflandsfélögum

Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Stapa, tilkynnti í gær að hann væri hættur störfum þar sem hann tengdist félögum í Panamaskjölunum. Hann segir ekki rétt að forsvarsmaður lífeyrissjóðs tengist slíkum félögum.


Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var á vef Stapa í gær. Þar skýrir Kári frá því að honum hafi borist símhringing frá Kastljósi um að nafn hans tengdist tveimur félögum.

Annars vegar félagi sem stofnað sé í Lúxemborg árið 1999 af Kaupþingi þar sem hann hafi getið starfsmönnum bankans fullt umboð til að eiga viðskipti fyrir hönd félagins.

Hann segist engin gögn hafa um viðskipti félagsins en því hafi verið lokað eftir þrjú ár sem bendi til þess að fjárfestingar þess hafi ekki gengið vel. Kári segist telja víst að hann hafi hvorki lagt fjármuni í félagið né fengið úr því.

Hitt félagið var stofnað af MP banka fyrir hans hönd árið 2004. Hann segist hafa greitt rúmar 300 þúsund krónur fyrir stofnun þess en aldrei notað það. Það hafi verið talið fram og afskrifað þremur árum síðar.

„Ég hafði því engan ávinning af þessum félögum og þau tengjast engum skattaundanskotum.“

Hagnaðurinn skiptir ekki máli

Kári Arnór segir að honum hafi eflaust borið að tilkynna tilvist félagaanna til yfirmanna sinna. Það muni hann ekki eftir að hafa gert og hafi „að því leyti ekki uppfyllt starfsskyldur“ sínar.

Mörg gylliboð hafi verið í gangi fyrir bankahrunið. Hann hafi ekki verið ónæmur fyrir þeim en ekki ekki haft fé upp úr þessum ævintýrum. Hann sé ekki stoltur gjörðum sínum en beri fulla ábyrgð á þeim.

„Þótt eflaust megi deila um hversu alvarlegir þeir hlutir eru sem ég hef hér lýst, þá met ég þá umræðu sem nú er í samfélaginu um aflandsfélög og skattaskjól þannig að ekki sé boðlegt að maður sem er í minni stöðu, þ.e. forstöðumaður aðila sem varslar lífeyrissparnað fyrir almenning, hafi tengst slíkum félögum.

Skiptir þá engu máli þótt langt sé um liðið, hvort þetta var löglegt eða ólöglegt eða hvort viðkomandi hafi hagnast á slíkum viðskiptum eða ekki.

Í ljósi þessa hef ég ákveðið að stíga til hliðar sem framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs. Það er að mínu mati eina leiðin sem mér er fær til að axla ábyrgð, enda tengist vinnuveitandi minn ekki á neinn hátt þessum málum.“

Langur ferill

Kári Arnór, sem verður sextugur í lok mánaðarins, tók við starfi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs Norðurlands í byrjun september 1993 en hann var áður formaður Alþýðusambands Norðurlands og Verkalýðsfélags Húsavíkur.

Stapi varð til með samruna Lífeyrissjóðs Austurlands og Lífeyrissjóðs Norðurlands sumarið 2007 og varð Kári þá framkvæmdastjóri sameinaðs sjóðs. Sjóðurinn er með skrifstofur í Neskaupstað og Akureyri.

Aðalfundur sjóðsins verður haldinn þann 4. maí næstkomandi. Samkvæmt afkomutölum frá árinu 2015 hækkaði hrein eign til greiðslu lífeyris um 21 milljón í fyrra. Nafnávöxtun var 11,4% og raunávöxtum 9,2%, í báðum tilfellum um 5 prósentustigum hærri en árið á undan.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.