Framkvæmdir hafnar við Kröflulínu 3
Framkvæmdir eru hafnar í tengslum við reisingu Kröfulínu 3, nýrrar háspennilínu milli Kröfluvirkjunar og Fljótsdalsstöðvar.Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er byrjað á slóðagerð við Fljótsdalsstöð, að gera nýja brú yfir Jökulsá á Brú og koma fyrir vinnubúðum í Möðrudal. Þá er einnig hafin slóðagerð á svæðinu.
Tilboð í reisingu línunnar eru nýopnuð og verið er að fara yfir þau. Reiknað er með að fyrstu möstrin rísi um mánaðarmótin ágúst/september. Gangi allt að óskum verður línan spennusett í lok árs 2020.
Áætluð lengd línunnar er 122 km og liggur hún að mestu samsíða Kröflulínu 2. Hún liggur um þrjú sveitarfélög: Skútustaðahrepp, Fljótsdalshérað og Fljótsdalshrepp. Öll framkvæmdaleyfi liggja fyrir og er kærufrestur útrunninn.
Undirbúningur hefur staðið yfir í allnokkurn tíma en tillaga að matsáætlun á umhverfisáhrifum var kynnt í byrjun árs 2013. Markmið framkvæmdarinnar er að bæta raforkuflutningskerfið og auka stöðugleika og gæði orkuafhendingar.