Framkvæmdir hefjast við Fjarðarheiðargöng 2022

Til stendur að hefja framkvæmdir við Seyðisfjarðargöng strax árið 2022. Axarvegur lítur dagsins ljós á næstu fimm árum samkvæmt tillögum samgönguráðherra um endurskoðaða samgönguáætlun sem kynntar voru í morgun.

Fjarðarheiðargöng eru á lista yfir þau verkefni sem ráðast á í strax á fyrsta tímabili áætlunarinnar sem er 2020-2024. Áætlað er að hönnun ganganna taki tvö ár og framkvæmdir við þau sjö ár. Þess vegna má búast við að framkvæmdir hefjist 2022 og verði lokið 2029. Áætlaður kostnaður við þau eru 35 milljarðar króna.

Að auki er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við göng áfram til Norðfjarðar um Mjóafjörð á þriðja tímabili áætlunarinnar, 2030-2034. Kostnaður við þau er áætlaður 31 milljarður króna.

Helmingur fjármagnsins til gangaframkvæmdanna kemur 50% beint úr ríkissjóði. Að auki stendur til að leggja á veggjald, bæði í nýju göngunum og öðrum göngum hérlendis til að fjármagna ný göng, sem og rekstur þeirra.

Sigurður Ingi Jóhansson, samgönguráðherra, sagði með þessu farið að fordæmi Færeyinga þar sem landsstjórnin leggi 20% til stofnfjár jarðganga. Göngin séu kláruð og þar hefjist síðan gjaldtaka til að greiða niður stofnkostnaðinn. Þegar því takmarki sé náð lækki gjaldið en það nýtist til að greiða viðhald ganganna og næstu framkvæmdir.

Axarvegur á fyrsta tímabili

Fleiri verkefni á Austurlandi er að finna á samgönguáætluninni sem byggir til ársins 2034. Axarvegur, sem að hluta á að fjármagna með veggjaldi, á að klárast fyrir árið 2024. „Það hefur verið mikil krafa um þann veg frá heimamönnum í tengslum við nýtt og stærra sveitarfélag,“ sagði Sigurður Inga.

Ráðherrann var töluvert spurður út í fyrirkomulag veggjalda. Þau byggja í dag að hluta á eldsneytisgjaldi en forsendur þess gætu brostið með nýjum orkugjöfum. Sigurður Ingi sagði þau mál til skoðunar í stafshópi sem fjármálaráðuneytið leiði, líkt og víða um veröld.

Það sé óháð veggjaldi eins og á Öxi eða nýjan veg um Hornafjarðarfljót sem einnig á að klárast á fyrsta tímabili. „Ef þú getur greitt 350 krónur til að fara nýjan veg yfir Hornafjarðarfljót til að spara 1200 kr. í akstri þá er það ávinningur fyrir þig.

Vegurinn yfir Öxi styttir leiðina um 60 km. Það er meiri þjóðhagslegur ávinningur fyrir flutningabíla sem fara þá leið heldur en Hvalfjarðargöngin. Þetta er gríðarlega arðsamt val ef þú vilt. Þú getur farið hina leiðina ef þú vilt en þá er engin önnur gjaldtaka á henni en sú hefðbundna,“ sagði Sigurður Ingi.

Tvö önnur verkefni á Austurlandi eru á þriðja tímabili áætlunarinnar. Nýr vegur um Lón sem kosta mun þrjá milljarða og endurbætur á veginum milli Reyðarfjarðar og Breiðdalsvíkur sem metið er á 4,8 milljarða.

Sigurður Ingi kynnti stuttlega nýja jarðgangaáætlun en Seyðisfjarðargöngin eru efst á henni og svo göngin áfram til Norðfjarðar. Hann sagði að skoða þyrfti nánar aðra jarðgangakosti sem til skoðunar hafa verið. Þar eru meðal annars göng undir Lónsheiði til að komast framhjá Hvalnesskriðum auk stærri Múlaganga og nýrra Súðavíkurganga.

Skiptir máli fyrir þróun atvinnulífs og samfélags á Austurlandi

Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, var í pallborði á fundinum ásamt Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins. Jóna Árný sagði framkvæmdirnar sem boðaðar skipta miklu máli fyrir samfélag og atvinnulíf á Austurlandi. „Við sem gerum okkur grein fyrir hve miklu máli samgöngur skipta fyrir þróun samfélags og atvinnulífs um allt land hljótum að fagna.“

Nokkuð var spurt út í notkun kostnaðarábatagreiningar við forgangsröðum samgönguframkvæmda. „Við höfum þarna tækifæri til að byggja upp sterkt miðsvæði Austurlands. Þar eru tækifæri til að laða að fólk og stuðla að uppbyggingu atvinnulífs. Þetta samfélag á mikið inni í þróun á sínum atvinnuvegum. Því er þjóðfélagslega ábatasamt að nýta þau tækifæri með að byggja upp samgöngur. Ég er ánægð með að sjá hve langt þetta er komið inn í áætlunina og hlökkum til samtalsins í framhaldinu.“

Bæði Sigurður Ingi og Jóna Árný sögðu mikilvægt að fyrir lægi áætlun sem hægt væri að fara vinna eftir. „Það er komin áætlun. Þótt hún taki 15 ár geta sveitarfélög, fyrirtæki og fleiri farið að vinna eftir henni. Annars geta menn sagt að þeir séu í óvissu.

Við verðum að nýta tækifærið núna til að tengja byggðarlög. Ef við ætlum að bíða í 20 ár meðan við erum að safna fyrir framkvæmdum þá verða engin byggðarlög til að tengja,“ sagði Sigurður Ingi.

„Það er mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn. Hjá okkur fyrir austan eru að byggjast upp nýir atvinnuvegir. Ferðaþjónustan er að hjarna við, það eru mikil áform um fiskeldi og blússandi þróun í sjávarútvegi. Að hafa skýra sýn um hvernig samgöngumál munu þróast getur atvinnulífinu mikil tækifæri til að horfa til þess hvernig nýta megi þróunina til að efla samfélögin. Við vinnum alltaf með það í þessum minni samfélögum að þau byggja á sterku atvinnulífi og það byggir á samgöngum.

Við horfum til þess að samkeppnishæfnin eykst. Það verður auðveldara að búa í einu hverfi, vinna í öðru og jafnvel vera með barnið í skóla í því þriðja. Þessar tengingar skipta okkar samfélag miklu máli og ég er sannfærð um að þær muni skila sér margfalt til baka," sagði Jóna Árný.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar