Framkvæmdir við leikskólann á Eskifirði hefjast vonandi 2021
Hönnun á leikskólanum Dalborg á Eskifirði seinkaði og er ekki lokið eins og stóð til. Aðeins frumhönnun hefur verið gerð. Þetta kom fram á íbúafundi á Eskifirði þar sem fulltrúar bæjarráðs Fjarðabyggðar voru spurðir út í stöðuna á leikskólanum.
Í lok síðasta kjörtímabils, haustið 2017 var samþykkt að fara í samhliðahönnun á leikskólunum á Eskifirði og Reyðarfirði. Vegna meiri fjölda barna á Reyðafirði var ákveðið var þá að byrja framkvæmdir á Reyðarfirði og að viðbygging á Eskifirði kæmi í kjölfarið.
„Þegar farið var í hönnunina leikskólunum báðum var áætlunin að byrja framkvæmdir á Eskifirði vegna þess að þar voru fleiri börn. En svo breyttist staðan og börnum fjölgaði á Reyðarfirði og því þörfin meiri á nýjum leikskóla meiri þar. Það er helsta ástæða tafanna sem hafa orðið. Við þurftum að bregðast við breyttum forsendum og aðstæðum. Svo ofan á það drógust framkvæmdir á Reyðarfirði um fjóra mánuði,“ segir Marínó Stefánsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs.
Hann segir að gert er ráð fyrir að hönnun klárist á leikskólanum Dalborg á árinu 2020. „Það er öllum ljóst að það þarf fara í endurbætur og stækkun á leikskólanum. Bæjarstjórn er búinn að samþykkja að fara í kostnaðar- og þarfagreiningu og jafnframt förum við í að skoða lausnir til að brúa bilið fram að byggingaframkvæmdum,“ segir hann
Skipaður hefur verið starfshópur til að vinna við umrædda greiningu og lausnir, í þessum hópi sitja meðal annars leikskólastjóri sem og starfandi leikskólastjóri sem leysir af þá stöðu um þessar mundir.
„Það er mikilvægt að þeir sem vinna við aðstöðuna komi að málinu. Bæjarstjórn tekur málið fyrir að nýju um leið og þessari vinnu lýkur í upphafi ársins 2020. Vonandi hefjast framkvæmdir 2021,“ segir Marínó að lokum.
Leikskólinn Dalberg. Myndin er aðsend