Framlög streyma inn til Píeta vegna sundafreks Sigurgeirs Sveinbergssonar
Samkvæmt upplýsingum frá Píeta-samtökunum kom mikill kippur í áheitasöfnun vegna sjósunds Sigurgeirs Sveinbergssonar úr Reyðarfirði að Eskifirði í gær en sundið það reyndist töluvert erfiðara en hann sjálfur bjóst við.
Sigurgeir var á góðu róli and- og líkamlega þegar Austurfrétt náði tali af honum upp úr hádegi í dag. Kappinn kom að landi við Mjóeyri á Eskifirði seint í gærdag eftir sjósund frá Grímu í Reyðarfirðinum eða alls um sex kílómetra langt sund í sjó sem aðeins taldi fáein hitastig. Hann lét sér þó ekki nægja að synda leiðina heldur dró líka kajak konu sinnar svona í leiðinni.
Allmargir biðu hans á leiðarenda og fögnuðu áfanganum með honum en sundið var til styrktar starfi Píeta-samtakanna og verður áfram hægt að styrkja samtökin vegna þessa afreks allt fram til 10. þessa mánaðar.
Hátt spennustig
Sigurgeir er að braggast vel eftir þrekraunina að eigin sögn en er hálfpartinn að vonast til að vinnuveitandi hans sýni smá lit en samkvæmt vaktaplani á hann næturvakt framundan í nótt.
„Ég þarf að kanna hvort það sé alltof illa séð ef ég tek mér einn frídag. Ég get ekki sagt að ég hafi sofið ýkja vel í nótt. Spennustigið eftir svona sund er þannig að maður nær sér eiginlega ekki niður fyrr en aðra nóttina. En sundið var vissulega ansi krefjandi. Straumarnir á leiðinni voru allt öðruvísi en ég gerði mér grein fyrir fyrirfram og þess vegna var sundið töluvert lengra en talið var. Í tíma talið var þetta nálægt sex klukkustundum alls meðan ég ímyndaði mér að þetta gæti tekið allt að fjórum klukkustundum. En ég hafði svo sem ekkert fyrir mér sérstakt í því mati.“
Sigurgeir hafði nánast enga tilfinningu í líkamanum þegar í land var komið en segist samt ekki beint hafa verið búinn á því þannig þó vissulega hafi verið gleðilegt að ná landi.
„Ég var ekkert endilega alveg búinn á því en að koma svona í þyngdaraflið aftur var svo skrýtið. Það tekur líkamann smá tíma að venjast því eftir svona langa stund í sjónum. Svo var ég orðinn svo kaldur að ég var allur dofinn, fann ekkert fyrir neinu og fann í raun ekkert hvort ég var að snerta jörðina eða ekki. Þegar tilfinning kom í líkamann aftur þá var þetta eins og að stíga á grjót eða golfkúlu.“
Mörgum að þakka
Sigurgeir vill koma á framfæri þökkum til allra sem aðstoðuðu hann við þetta erfiða sund en hann aldrei áður synt í svo köldum sjó sem raunin er í nóvember þó hann hafi töluverða reynslu af sjósundi yfir hlýrri mánuði ársins. Þar á hann við aðila eins og Siglingaklúbb Austurlands, björgunarsveitinni Brimrún á Eskifirði og björgunarsveitinni Geisla á Fáskrúðsfirði sem veitti honum ómetanlega hjálp á leiðinni en aðilar frá þessum félögum fylgdu honum eftir alla leiðina.
„Þetta var auðvitað gert til að minna á gott starf Píeta-samtakanna og ég vona að sem flestir sýni áhuga að láta eitthvað af hendi rakna til að það mikilvæga starf haldi áfram og eflist.“
Skjáskot af vef Rúv af Sigurgeir að synda í gær. Slíkt afrek illa hægt nema með mikilli aðstoð og það fékk Sigurgeir sannarlega og er þakklátur fyrir.