Framsóknarflokkurinn slítur meirihlutasamstarfinu í Fjarðabyggð
Framsóknarflokkurinn í Fjarðabyggð tilkynnti í kvöld að ákveðið hefði verið að slíta meirihlutasamstarfi hans og Fjarðalistans í bæjarstjórn Fjarðabyggðar vegna trúnaðarbrests. Framsóknarflokkurinn hefur á morgun viðræður við Sjálfstæðisflokkinn um myndun nýs meirihluta.
Þetta kemur fram í færslu sem birtist á Facebook-síðu Framsóknar í Fjarðabyggð um klukkan hálf tíu í kvöld. Þar segir að ákvörðunin komi í kjölfar trúnaðarbrestar á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag.
Þar greiddi Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, annar fulltrúa Fjarðalistans, atkvæði gegn tillögu um breytingar á skólastofnunum Fjarðabyggðar. Hún sagði samráð hafa skort við gerð tillögunnar og að hún óttaðist að breytingin yrði ekki til framfara. Hún lauk máli sínu á að hvetja aðra fulltrúa til að fella tillöguna.
Áður hafði tillagan verið samþykkt í vinnuhópi sem í sátu fulltrúar allra framboða í Fjarðabyggð, þar með talið oddviti Fjarðalistans, Stefán Þór Eysteinsson. Stefán Þór var einnig formaður bæjarráðs sem samþykkti breytingarnar samhljóða nokkrum klukkustundum fyrir bæjarstjórnarfundinn.
Vonbrigði að vantrausti væri lýst á vinnuna
„Góð samstaða og samstarf var í störfum hópsins milli fulltrúa allra flokka en meðal annars sátu oddvitar bæjarstjórnarflokkanna í hópnum. Niðurstöður hópsins voru kynntar bæjarfulltrúum líkt og stjórnendum skólanna í Fjarðabyggð áður en stjórnkerfisnefnd afgreiddi tillögu byggða á áðurnefndum niðurstöðum.
Það voru því mikil vonbrigði þegar bæjarfulltrúi Fjarðalistans tók þá ákvörðun að styðja ekki málið á áðurnefndum bæjarstjórnarfundi og um leið lýsa vantrausti á alla vinnu hópsins og þá um leið alla þá sem að þeirri vinnu hafa komið frá því að hann hóf störf. Í ljósi þess þá hefur Framsóknarflokkurinn í Fjarðabyggð tekið áðurnefnda ákvörðun og hefur tilkynnt oddvita Fjarðalistans um hana,“ segir í tilkynningu Framsóknarflokksins.
Í lokin er greint frá því að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur muni á morgun „taka samtal um stöðu mála“ í bæjarstjórninni.
Á Facebook-síðu Fjarðalistans kom um svipað leyti stutt færsla um að oddviti Framsóknar hefði í kvöld tilkynnt oddvita Fjarðalistans um slitin og væntanlegar meirihlutaviðræður.
Meirihluti Framsóknarflokks og Fjarðalista var upphaflega myndaður að loknum kosningum árið 2018 og endurnýjaður eftir síðustu kosningar vorið 2022. Þar áður höfðu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur starfað saman í átta ár.