Franski spítalinn hlýtur Evrópsku Menningarverðlaunin á sviði menningararfleiðar

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði er meðal 28 verkefna sem í morgun fengu Evrópsku Menningarverðlaunin fyrir verkefni á sviði menningararfleiðar/Europa Nostra verðlaunanna árið 2016, en þetta er stærsta viðurkenning sem veitt er á sviði menningararfleifðar í Evrópu.


Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru veitt til framúrskarandi verkefnis frá Íslandi: Endurbyggingar og umbreytingar Franska Spítalans á Fáskrúðsfirði í safn.

„Verkefnið endurvekur ákveðið tímabil í Evrópskri sögu með því að rifja upp þessa tengingu milli Frakklands og Íslands. Samstarfshópurinn hefur lagt sig fram um að varðveita þessa merku og viðkvæmu byggingu sem og hina áhugaverðu arfleifð sem hún stendur fyrir“, sögðu dómarar verkefnisins.

„Endurgerð byggingar eins og Franska spítalans fyrir ólíka starfsemi er vandasamt verk. Úrlausn og úrræðasemi samstarfshópsins er sérlega góð. Sú ákvörðun að blanda saman upplýsandi safni og fallegu hóteli er mark um virðingu hópsins fyrir sögu hússins og áherslu þeirra á að auka aðgengi allra að arfleifð hennar.“

Í hverju fólst verkefnið?

Verkefnið fólst í endurbyggingu og flutningi Franska spítalans til Fáskrúðsfjarðar þar sem hann var upprunalega byggður. Auk spítalans voru kapella, sjúkraskýli og Læknishús á sama stað, sem einnig voru gerð upp eða endurbyggð. Nafn spítalans má rekja til stofnunar hans árið 1904 til að sinna fjölda franskra sjómanna sem veiddu við strendur Íslands í um 400 ár. Við upphaf síðari heimstyrjaldarinnar hættu þeir siglingum til Íslands.

Þrátt fyrir tilraunir bæjarfélagsins til að halda spítalanum gangandi var honum fljótt lokað og húsið flutt yfir fjörðinn og breytt í íbúðarhús. Árið 1980 var húsið endanlega yfirgefið og lagðist í eyði.

Uppbyggingarverkefnið, sem hófst árið 2009, fólst í samstarfi arkitekta, verkfræðinga og handverksmanna Minjaverndar og innan bæjarfélagsins undir stjórn Minjaverndar.

Þetta var stórt verkefni með það að markmiði að endurlífga þetta markverða tímabil í sögu bæjarfélagsins með því að breyta spítalanum í hótel og safn til minningar um hinn mikla fjölda sjómanna sem fórust við strendur Íslands og á spítalanum. Virðing var borin fyrir upprunalegum efniviði og handverki við endurbyggingu hússins, timbur úr gömlu byggingunni var endurnýtt og gömlu handverki beitt til hins ýtrasta.

Byggingin er staðsett í stórbrotnu og fallegu landslagi Fáskrúðsfjarðar og hefur laðað ferðamenn að þorpinu og þar með endurvakið stöðu þess sem athvarf fyrir þá sem eru langt að heiman.

Verkefnið kynnt í Madríd

Verðlaunahafarnir, sem eru 28 talsins og frá 16 löndum, hafa hlotið viðurkenningu fyrir framúrskarandi afrek sín á sviðum verndunar, rannsóknavinnu, sérhæfðrar þjónustu og fræðslu, þjálfunar og vitundarvakningar.

Óháðar dómnefndir skipaðar sérfræðingum völdu sigurvegarana úr hópi 187 umsókna sem sendar voru inn af samtökum og einstaklingum frá 36 Evrópulöndum.

Sigurvegurum Evrópsku Menningarverðlaunanna fyrir verkefni á sviði menningararfleiðar 2016 verður fagnað við sérstaka athöfn, sem leidd verður af Tibor Navracsics og óperusöngvaranum Plácido Domigo sem leiðir Europa Nostra, kvöldið 24 maí í sögulega Zarzúela leikhúsinu í Madríd.

Um 1000 manns munu sækja verðlaunaathöfnina, en á meðal þeirra verða sérfræðingar um menningararfleifð, sjálfboðaliðar og stuðningsfólk hvaðanæva að úr Evrópu, sem og háttsettir fulltrúar stofnana Evrópusambandsins, Spánar, og aðildarríkja. Við athöfnina munu sjö sigurvegarar hljóta fyrstu verðlaun, að verðmæti €10,000, auk þess sem tilkynnt verður um sigurvegara úr netkosningu almennings.

Auk athafnarinnar munu verðlaunahafarnir kynna afrek sín á sýningu sem mun eiga sér stað um morguninn, 24 Maí, í aðalbyggingu háskóla arkitektúrs í Madríd. Þeim mun einnig vera boðið að taka þátt í ýmsum viðburðum í tengslum við ráðstefnu evrópskrar menningararfleifðar, sem skipulögð er af Europa Nostra, innan verkefnisins „Mainstreaming Heritage“, sem er styrkt af verkefni Evrópusambandsins „Skapandi Evrópa“.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.