Frítt að leggja í fjórtán klukkutíma
Isavia Innanlandsflugvellir hafa ákveðið að ókeypis verði að leggja við flugvellina á Egilsstöðum og á Akureyri í 14 tíma. Gjaldtaka fyrir bílastæði þar og við Reykjavíkurflugvöll hefst á morgun.Þetta kemur fram í tilkynningu sem Isavia sendi frá sér í dag. Styr hefur staðið um gjaldtökuna síðan fyrst var tilkynnt um hana í janúar. Þá átti aðeins að vera frítt að leggja við flugvellina í 15 mínútur.
Gjaldtökunni var frestað eftir mótmæli en í lok maí tilkynnt að henni yrði aftur komið á í júní. Þá var búið að lengja tímann upp í fimm tíma. Í síðustu viku beindi fjármálaráðherra, sem staðfesti þjónustusamning Isavia Innanlandsflugvalla við innviðaráðuneytið, því til Isavia ofh. móðurfélags Isavia Innanlandsflugvalla, að tryggt yrði að fólk sem þyrfti fram og til baka vegna heilbrigðisþjónustu þyrfti ekki að borga í bílastæðin.
Í tilkynningu Isavia frá í dag segir að með þess sé komið „myndarlega til móts við þær athugasemdir og ábendingar sem fram hafa komið í umræðunni um gjaldtökuna.“
Gjaldið ætlað til að byggja upp bílastæðin
Sveitarstjórnir, stjórnendur stofnana og fyrirtækja, þingmenn og einstaklingar hafa mótmælt gjaldtökunni og lýst henni sem landsbyggðaskatti sem bætist við þegar dýr flugfargjöld. Slíkt hafi áhrif á rekstrarkostnað, vöruverð, geti leitt til álags á bílastæði í nágrenni flugvallarins auk þess sem efasemdum hefur verið lýst um lögmæti gjaldtökunnar.
Af hálfu Isavia hefur því verið haldið fram að tekjurnar muni renna til viðkomandi flugvallar og eigi að duga til rekstrar og uppbyggingar bílastæða við völlinn. Austurfrétt hefur sent Isavia spurningar varðandi bílastæðagjöldin og forsendur þeirra, meðal annars hverjar séu áætlaðar tekjur og hvaða framkvæmdaáætlanir liggi fyrir á bílastæðunum. Gagnrýnendur gjaldtökunnar hafa bent á að í dag sé að mestu um að ræða malarstæði sem séu það óslétt að í þeim myndist fljótt pollar og þau séu illa upplýst á veturna.
Hvað kostar að leggja í bílastæði við Egilsstaðaflugvöll?
Eftir fyrstu 14 tímana kostar 1.450 krónur að leggja á hverjum sólarhring. Eftir sjö daga lækkar gjaldið í 1.350 krónur og loks niður í 1.200 krónur eftir 14 daga. Á Reykjavíkurflugvelli verða tvö gjaldsvæði sem kallast P1 og P2. Frítt er að leggja fyrstu 15 mínúturnar á P1 en í 45 mínútur á P2.
Eingöngu er hægt að greiða fyrir stæði í gegnum snjallforrit Autopay, í gegnum vefsíðu Autopay eða með Parka-appinu. Annars er sendur reikningur í heimabanka tveimur dögum eftir að keyrt er út af stæðinu. Þá bætast 1.490 krónur við í þjónustugjald.
Á vefnum www.egsparking.is má finna nánari upplýsingar um gjaldtökuna.