Frummat komið á 10.000 tonna fiskeldi í Seyðisfirði
Fiskeldi Austfjarða hefur lagt fram frummatsskýrslu um umhverfisáhrifin af 10.000 tonna laxeldi í Seyðisfirði.Niðurstaðan er að áhrif á framkvæmdatíma eru talin verða tímabundin og óveruleg á flesta umhverfisþætti en talsvert jákvæð á flesta þætti samfélags. Öll áhrif eru metin afturkræf, að því er segir í skýrslunni.
Skýrslan og gögn tengd henni er aðgengileg á skrifstofu sveitarfélagsins Múlaþings í Seyðisfirði, Skipulagsstofnun og í Þjóðarbókhlöðunni. Frestur til að skila athugasemdum er til 28. desember.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að Fiskeldi Austfjarða hf. hóf starfsemi árið 2012 og hefur síðan verið unnið markvisst að uppbyggingu laxeldis á Austfjörðum. Stefna fyrirtækisins er að byggja upp umhverfisvænt eldi í sem mestri sátt við vistkerfi framleiðslusvæða. Félagið er með umhverfisvottunina AquaGap á framleiðslu og vinnslu sinni, en vottunin gerir kröfur um sjálfbærni og rekjanleika.
Ennfremur segir að ætlanir gera ráð fyrir að árleg framleiðsla verði um 10.000 tonn í Seyðisfirði. Hafrannsóknastofnun hefur gefið út burðarþolsmat fyrir Seyðisfjörð upp á 10.000 tonna lífmassa, en einnig hefur stofnunin gert tillögu til ráðherra að áhættumati fyrir Seyðisfjörð. Þar er gert ráð fyrir að ala megi allt að 6.500 tonn af frjóum laxi í firðinum.
Fiskeldi Austfjarða mun sækjast eftir að ala 6.500 tonn af frjóum og 3.500 tonn af ófrjóum eldislaxi í samræmi við fyrirliggjandi tillögur.
Fiskeldi Austfjarða hefur þegar starfsemi í tveimur fjörðum, þ.e. Berufirði og Fáskrúðsfirði. Félagið hefur rekstrar- og starfsleyfi í báðum fjörðunum og er heimilt að ala 9.800 tonn af laxi í Berufirði og 11.000 tonn í Fáskrúðsfirði.
Í Seyðisfirði verða fjögur eldissvæði, þ.e. í Selstaðavík, Sörlastaðavík, Skálanesbót og Háubökkum. Þrjú verða nýtt að jafnaði, en Háubakkar verða til vara.