Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaga í nýju sveitarfélagi sameinað
Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna á Fljótsdalshéraði, Borgarfirði eystra, Seyðisfirði og Djúpavogshreppi hafa sameinast í eitt í kjölfar niðurstöðu sameiningarkosningar í sveitarfélögunum fjórum.Sameingin ráðanna var samþykkt á fundi á Egilsstöðum síðasta föstudagskvöld. Í ráðinu eiga sæti 49 fulltrúar úr sveitarfélögunum fjórum og var mæting á fundinn góð, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Á fundinn mætti einnig forusta flokksins á landsvísu, formaðurinn Bjarni Benediktsson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður, Jón Gunnarsson ritari, Birgir Ármannsson þingflokksformaður og Þórður Þórðarson framkvæmdastjóri.
„Fundurinn var góður, mætingin mjög góð og frábært að öll forysta flokksins skyldi mæta og fagna með okkur,“ segir Hilmar Gunnlaugsson, formaður fulltrúaráðsins.
„Við finnum fyrir miklum áhuga á fyrirhugaðri sameiningu sveitarfélaganna, bæði innan okkar raða í sveitarfélaginu og á landsvísu eins og mæting allrar forystunnar á einu bretti er til vitnis um.
Nú notum við næstu vikur og mánuði til að hrista okkur saman og ræða um málefni og hagsmuni sveitarfélagsins og auðvitað framboðsmál. Við Sjálfstæðisfólk leggjum allt kapp á að sameina starf okkar og tryggja að við séum saman að horfa til framtíðar, þar sem allar raddir fái komist að. Það krefst mikillar vinnu og við erum nú orðin klár í þá vegferð.“
Ný stjórn fulltrúaráðsins var kjörin á fundinum en í henni sitja auk Hilmars: Adolf Guðmundsson varaformaður, Elísabet Guðmundsdóttir gjaldkeri, Karl Lauritzson ritari, Jakob Sigurðsson, Gauti Jóhannesson, Sigurður Gunnarsson, Skúli Vignisson, Jónas Ástþór Hafsteinsson og Oddný Björk Daníelsdóttir.
Landsforustan hélt miðstjórnarfund á Egilsstöðum í tilefni af sameiningu fulltrúaráðanna og að honum loknum mættu þau á opnar samkomur sjálfstæðisfélaganna annars vegar og félaga ungs sjálfstæðisfólks hins vegar.
„Það er frábært að upplifa kraftinn og áhugann í starfinu og þá bjartsýni sem ríkir vegna sameiningar sveitarfélaganna. Það eru ekki allir sem funda á föstudagskvöldi á þessum árstíma og hvað þá að mæting sé þetta góð. Það er bjart yfir nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi. Gangi ykkur vel,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni í tilkynningunni.
„Það var gott að finna þann mikla kraft sem er hjá Sjálfstæðisfólki fyrir austan. Næstu mánuðir eru mikilvægir fyrir svæðið og ég hlakka til að fá að starfa með þeim,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gísladóttir.