Fundað með íbúum um sameiningar sveitarfélaga

Fyrsti fundurinn af fjórum um sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurland verður haldinn á Borgarfirði í kvöld. Þar gefst íbúum tækifæri til að segja sitt álit á hugmyndum samstarfsnefndar.

„Við vonumst til að út úr fundunum komi mjög ákveðnar hugmyndir um hver tillögugerð samstarfsnefndar eigi að vera,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og formaður samstarfsnefndar.

Sveitarfélagið hefur frá síðasta hausti átti í formlegum viðræðum við Borgarfjarðarhrepp, Djúpavogshrepp og Seyðisfjarðarkaupstað um sameiningu sveitarfélaganna.

Samstarfsnefnd hefur verið að störfum sem og sex starfshópar um ákveðin málefni. Starfshóparnir hafa skilað af sér minnisblöðum sem aðgengileg eru á heimasíðu verkefnisins og verða kynnt í byrjun fundanna.

„Við förum yfir aðdragandann, hvaða vinna hefur verið í gangi og vörpum fram þeim hugmyndum sem menn hafa komið sér saman um að skynsamlegt sé að fara,“ segir Björn.

Íbúum verður síðan skipt upp í hópa og fundað verður með þjóðfundafyrirkomulagi. Í lok hvers fundar verða niðurstöður hans dregnar lauslega saman. Samstarfsnefnd tekur við upplýsingunum og mótar tillögur fyrir sveitastjórnir sem væntanlega taka afstöðu til þeirra fyrir sumarleyfi.

Fyrsti fundurinn verður á Borgarfirði í kvöld en fundað verður á hverju kvöldi til fimmtudags í sveitarfélögunum fjórum. „Það verður fróðlegt að heyra hvort það verði samhljómur milli staða,“ segir Björn.

Fundirnir fara fram milli 18 og 21:30 og verða sem hér segir.
1. apríl í Fjarðarborg, Borgarfjarðarhreppi
2. apríl í Herðubreið, Seyðisfjarðarkaupstað
3. apríl á Hótel Framtíð Djúpavogshreppi
4. apríl á Hótel Valaskjálf Fljótsdalshéraði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar