Fundur um samgöngur og ferðamál á Borgarfirði á morgun
Opinn fundur um samgöngur og ferðamál verður haldinn á Hótel Álfheimum, Borgarfirði eystri, á morgun. Fundurinn hefst klukkan níu í fyrramálið og stendur fram yfir kaffi.
Um er að ræða kynningu á verkefni sem styrkt er af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins og þeim lausnum sem kynntar verða til sögunnar í því verkefni. Þær miða að því að þróa sveigjanlegar samgöngur í takt við eftirspurn. Þannig er ætlunin að nýta farsímatækni og netið til að miðla upplýsingum í rauntíma.
Að auki er áhersla á að meta umhverfisáhrif samgangnanna til að höfða betur til viðskiptavina sem gera má ráð fyrir að hafi sterka umhverfisvitund.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að þeir sem sækja heim dreifðar byggðir á norðurslóðum séu meðvitaðir um nauðsyn umhverfisverndar og því er þessi þáttur tvinnaður inn í þær lausnir sem er verið að þróa.