Furðufugl í Fljótsdal

Sefþvari, sjaldséður flækingsfugl á Íslandi, heiðraði Fljótsdælinga með nærveru sinni um helgina. Sjaldgæft er að fuglinn sjáist þar sem hann er frekar styggur.

„Það var Fljótsdælingur sem tók eftir honum á föstudag og lét okkur vita. Við fórum og náðum að sjá hann þá og aftur í gær í betri birtu,“ segir Halldór W. Stefánsson, fuglafræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands.

Sefþvari (Botaurus stellaris) er vaðfugl af hegraætt sem heldur til í suður-Evrópu en er farfugl þar sem vatn frýs á veturna. Sjaldgæft er að slíkir fuglar flækist til Íslands, þetta mun vera í sjöunda eða áttunda skiptið sem það gerist.

Þegar sefþvarinn verður þess var að fylgst sé með honum stendur hann kyrr með gogginn upp í loftið þannig hann rennur saman við umhverfið. Þess vegna er algengara að heyra í honum en sjá hann.

Halldór segir að sögur séu til um að fuglinn hafi áður sést upp í Fljótsdal en það er ekki staðfest. Fuglinn hafi verið laumulegur um helgina og fælinn í gær og að lokum hafi hann flogið út dalinn og horfið fuglaáhugafólki sem þar var á ferð sjónum.

Mynd: Lára Guðmundsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.