Fylgjast með umgengni á iðnaðarlóðum

Starfsmönnum Heilbrigðiseftirlits Austurlands hefur verið falið að fylgjast með umgengni á iðnaðarlóðum í fjórðungnum. Heilbrigðisnefnd svæðisins telur henni úrbótavant.

Í bókun frá síðasta fundi nefndarinnar segir að víða hafi umráðamenn iðnaðarlóða safnað að sér umtalsverðu magni af lausamunum á borð við úr sér gengnum ökutækjum og vinnuvélum, hjólbörðum, timburafgöngum og fleiru.

Þeir eru því hvattir til að halda lóðunum hreinum og snyrtilegum með að fjarlægja lausamuni, drasl og annað sem ekki tengist daglegum rekstri. Þá er starfsmönnum eftirlitsins falið að fylgjast sérstaklega með umgengi á iðnaðarlóðum á næstunni og gera kröfu um úrbætur ef þörf er á.

Á fundinum var sérstaklega tekið fyrir mál Dagsverks á Egilsstöðum, en nefndin hefur haft umgengi á lóð þess til umfjöllunar í nokkurn tíma og meðal annars hótað dagsektum ef ekki yrði bætt úr.

Frestur var veittur til 6. apríl. Í bókun kemur fram að búið sé að fjarlægja töluvert af hjólbörðum og fleiru af lóðinni en enn sé nokkuð eftir. Fyrirtækið hafi óskað eftir þriggja mánaða viðbótarfresti til að ljúka tiltekt í samræmi við kröfur eftirlitsins. Fallist var á að veita frest til 1. ágúst.

Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar